Verkefnasjóður

 

Verkefnasjóður Rauða krossins á Íslandi - reglur

Viðauki við reglur Verkefnasjóðs Rauða krossins á Íslandi (samþykkt 15. júní 2020)

Vinnureglur Verkefnasjóðs Rauða krossins á Íslandi

Verkefnasjóður Rauða krossins - eyðublað 1

Verkefnasjóður Rauða krossins - eyðublað 2


Verkefnasjóður Rauða krossins á Íslandi 

Reglur

1. gr.

Meginhlutverk Verkefnasjóðs er að veita deildum og deildaráðum styrki til að sinna verkefnum sem samræmast gildandi stefnu Rauða krossins. 

2. gr. 

Tekjur Verkefnasjóðs eru:
a) Hlutfall af tekjum af Íslandsspilum samkvæmt ákvörðun aðalfundar.
b) Tekjur sem ella hefðu runnið til deildar sbr. mgr. 12. gr. laga félagsins.
c) Áætluð framlög til rekstrar sjúkrabíla, hætti félagið rekstri þeirra. 

3. gr. 

Í stjórn Verkefnasjóðs sitja fimm fulltrúar. Stjórn Rauða krossins skipar fjóra fulltrúa og varamann í stjórn sjóðsins, auk formanns. Framkvæmdastjóri Rauða krossins eða staðgengill hans situr fundi stjórnar Verkefnasjóðs með málfrelsi og tillögurétt. 

4. gr. 

Stjórn Verkefnasjóðs setur sér vinnureglur til að tryggja gegnsæi úthlutana. Þær skulu lagðar fyrir stjórn Rauða krossins á Íslandi til staðfestingar. Ákvörðun um styrkveitingu úr Verkefnasjóði skal að jafnaði taka í september ár hvert, að fengnum umsóknum frá deildum. Skulu umsóknir berast til landsskrifstofu Rauða krossins fyrir 20. ágúst á þar til gerðum eyðublöðum. Úthlutun skal miða við áætlaðar tekjur sjóðsins næsta starfsár. Greiðslur úr sjóðnum skulu greiddar á því starfsári sem úthlutað er fyrir. Verði tekjuafgangur af verkefni skal endurgreiða hann fyrir úthlutun næsta árs. Ef sótt er um lægri upphæð en sjóðurinn hefur til ráðstöfunar í september gefst deildum tækifæri á að sækja um aftur og skal þá umsóknum skilað til landsskrifstofu fyrir 15. nóvember. Ekki má skuldbinda Verkefnasjóð til lengri tíma en þriggja ára í senn. Ef um langtímaverkefni er að ræða skal senda inn nýja umsókn að þeim tíma liðnum. 


5. gr. 

Við úthlutun skal taka mið af fjárþörf verkefnis og fjárhagsstöðu umsækjanda. Ef peningaleg eign deildar er hærri en sem nemur tvöföldum kassatekjum er stjórn Verkefnasjóðs heimilt að hafna eða skerða styrk úr sjóðnum. Undanþágur eru veittar vegna eyrnamerkts arfs og söluhagnaðar fasteigna sem ekki hefur verið ráðstafað. Styrkur úr Verkefnasjóði getur ekki orðið hærri en sem nemur 75% af áætluðum kostnaði deildar við verkefnið. 

6. gr

Stjórn Verkefnasjóðs getur leitað eftir áliti sérfróðra aðila á umsóknum eftir því sem við á. Stjórn Verkefnasjóðs sér um eftirfylgni og eftirlit með þeim verkefnum sem hljóta úthlutun úr sjóðnum. Deild sem hlotið hefur styrk skal skila áfangaskýrslu til landsskrifstofu vegna verkefnisins sem úthlutað var til árið á undan. Síðasti skiladagur er 15. mars. Stjórn Verkefnasjóðs er heimilt að afturkalla veittan styrk að hluta til eða að öllu leyti ef forsendur úthlutunar breytast. Óráðstöfuðu styrkfé er skilað að verkefnistíma loknum. 

7.gr. 

Skilyrði þess að styrkir séu veittir úr Verkefnasjóði er að umsækjandi hafi haldið aðalfund og skilað Rauða krossinum á Íslandi árituðum ársreikningi og ársskýrslu fyrir næstliðið rekstrarár. 

8. gr. 

Niðurstöður stjórnar Verkefnasjóðs skulu lagðar fyrir stjórn Rauða krossins á Íslandi til kynningar og umsagnar áður en þær eru kynntar deildum. Upplýsingar um allar úthlutanir úr Verkefnasjóði skulu sendar deildum eins fljótt og auðið er. 

9. gr. 

Verði afgangur af Verkefnasjóði skal hann færast til næstu úthlutunar. 

10. gr. 

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 13. gr. laga Rauða krossins á Íslandi, voru samþykktar á fundi stjórnar Rauða krossins 20. 06. 2018.