Samstarf deilda og deildaráð

Reglur um samstarf deilda og deildaráðReglur um samstarf deilda og deildaráð 

Inngangur 

Samkvæmt lögum Rauða krossins (1. málsgr. 19. gr.) geta deildir átt samstarf sín á milli m.a. með því að mynda deildaráð.
Deildir og deildaráð geta starfað með stjórn, landsskrifstofu og öðrum aðilum að framkvæmd stefnu og verkefna Rauða krossins á starfssvæðum þeirra (2. málsgr. 19. gr.).
Í sveitarfélögum þar sem tvær eða fleiri deildir starfa skulu þær starfa saman í deildaráði (3. málsgr. 19. gr.) en þær geta boðið deildum sem starfa í öðrum sveitarfélögum að taka þátt í deildaráðinu.
Deildirnar geta fært starfsemi sína að hluta eða að fullu til deildaráðsins og er starfsemi þess fjármögnuð með framlögum frá viðkomandi deildum.
Stjórn Rauða krossins setti á fundi sínum 8. september 2012 eftirfarandi reglur í samræmi við lög félagsins (4. málsgr. 19. gr.). 

Hlutverk deildaráðs 

1. Deildaráð er formlegur samráðs- og samstarfsvettvangur tveggja eða fleiri deilda. Hlutaðeigandi deildir geta falið deildaráði framkvæmd verkefna. Deildaráð getur verið samráðsvettvangur deilda án þess að tiltekin verkefni tilheyri undir það. 

Skipan deildaráðs 

2. Hver deild sem aðild á að deildarráði tilnefnir einn aðalfulltrúa í ráðið og einn varafulltrúa. Aðalfulltrúi deildar í deildaráði skal vera deildarstjórnarmaður. 

Verkefni og fjármál deildaráðs 

3. Deildaráð getur ekki tekið sér fyrir hendur verkefni án samþykkis deilda né skuldbundið þær fjárhagslega eða á annan hátt. 

4. Deildaráð hefur ekki sjálfstæðan fjárhag. Framlög til verkefna ráðsins koma frá deildunum sem á bak við ráðið standa. Deildaráð getur ekki skuldbundið deildir fjárhagslega án samþykkis þeirra. Hafi deildir falið deildaráði framkvæmd verkefna gerir ráðið fjárhags- og framkvæmdaáætlun fyrir viðfangsefni sín og sendir deildum hana til staðfestingar. Að jafnaði skal þeirri reglu fylgt að ein þeirra deilda sem aðild á að deildarráðinu annist fjármálaumsýslu varðandi hvert verkefni þess. 

Formaður deildaráðs 

5. Deildaráð kýs sér formann og varaformann til eins árs í senn. Sama deild getur ekki farið með formennsku lengur en tvö ár í röð. Varaformaður er staðgengill formanns. 

6. Formaður deildaráðs boðar til fundar í ráðinu, stýrir fundi og ber ábyrgð á því að fundargerð sé rituð og birt. 

7. Formaður deildaráðs er í forsvari fyrir Rauða krossinn gagnvart sameiginlegu sveitarfélagi deilda í deildaráðinu þar sem það á við. 

8. Deildaráð getur, með samþykki allra deilda sem aðild eiga að því, ráðið starfsmenn til að framkvæma verkefni ráðsins og er formaður deildaráðs þá yfirmaður viðkomandi. 

Fundir deildaráðs 

9. Deildaráð setur sér reglur um tíðni funda. Boðað skal til funda deildaráðs í bréfi, með rafrænum hætti eða á annan sambærilegan hátt með minnst fimm daga fyrirvara. Rita skal fundargerð á hverjum fundi deildaráðs. Hún skal samþykkt í lok fundar og birt á sjálfboðavef félagsins. Ákvarðanir á fundum deildaráðs teljast aðeins gildar séu þær teknar af meirihluta fulltrúa í ráðinu. Deildaráð getur heimilað starfsmönnum Rauða krossins og fulltrúa Ungmennaráðs Rauða krossins að sitja fundi deildaráðs með málfrelsi og tillögurétt. 

Nánari reglur um störf deildaráðs 

10. Deildaráð getur sett sér nánari reglur um starfsemi sína en þær sem að ofan greinir. Þær reglur skulu vera staðfestar af deildastjórnum sem eiga aðild að ráðinu. 

Samstarf deilda um verkefni utan deildaráðs 

11. Deildir geta sameinast um afmörkuð verkefni án þess að það sé á vettvangi deildaráðs. Deildir gera þá með sér skriflegan samning um samstarfsverkefni og stjórnunarfyrirkomulag þess.