Samræmdar reglur um fjáröflun Rauða krossins á Íslandi

Reglur um fjáröflun samþykktar á aðalfundi 2014

Eftirfarandi eru reglur um fjáröflun Rauða krossins og skiptingu söfnunarfjár og styrkja til verkefna innanlands og á alþjóðavettvangi. Reglurnar taka til allra fjáröflunarverkefna Rauða krossins og einstakra deilda hans. Mikilvægt er að frumkvæði að fjáröflun eigi sér stað sem víðast innan félagsins. Rauði krossinn telur mikilvægt að setja reglur um fjáröflun til að varðveita orðspor félagsins og það traust sem almenningur ber til þess.

1.     Markmið með reglunum er að

 • Hvetja til verulega aukinnar fjáröflunar til stuðnings verkefnum Rauða krossins.
 • Samhæfa fjáröflun landsskrifstofu Rauða krossins og deilda hans þannig að velunnarar félagsins hafi góðan skilning á þeim verkefnum sem fjármunir renna til, þeim finnist félagið ganga fram með hóflegum hætti og þeir aðhyllist fyrir vikið farsælt langtímasamstarf við félagið. Einn fulltrúi Rauða krossins sjái um fjáröflun hjá hverjum velunnara á hverjum tíma.
 • Tryggja að samræmd umsjón sé með allri fjáröflun undir merkjum Rauða krossins. Hún verður á vegum landsskrifstofu undir daglegri umsjón fjáröflunarfulltrúa Rauða krossins. Hann tryggir að jafnan liggi fyrir skýr mynd um hlutverkaskiptingu, tekjur og kostnað af öllum fjáröflunarverkefnum.
 • Grunntónninn í þessum reglum er að öll fjáröflun Rauða krossins er tengd þeim verkefnum sem félagið vinnur að. Fjáröflun sem nýtt er til rekstrar- eða stjórnunarkostnaðar einstakra deilda má ekki vera meiri en sem nemur 10% af kostnaði hvers verkefnis.

2.    Meginreglur um fjáröflun

 • Fjáröflunarverkefni Rauða krossins eru öll helguð tilteknum verkefnum.
 • Sú félagseining sem stendur fyrir fjáröflun fær til ráðstöfunar fyrir afmarkað verkefni þær tekjur sem aflast og ber kostnað af henni. Landssafnanir eru undantekning frá þessari reglu.
 • Gefandi, einstaklingur eða fyrirtæki, getur sett skilyrði um til hvaða verkefna eða deildar gjafafé hans er notað. Þau verkefni þurfa að vera í samræmi við markmið og stefnu Rauða krossins og falla að þeim verkefnum sem félagið sinnir.
 • Óaðskiljanlegur hluti af fjáröflun er að þakka velunnurum fyrir framlög og upplýsa þá um árangurinn af fjárstyrk þeirra.

3.        Framkvæmd
Fjáröflunardagatal

 • Deildir og landsskrifstofa Rauða krossins skulu setja áætlanir sínar um fjáröflunarverkefni í árlega framkvæmdaáætlun.
 • Landsskrifstofa samræmir þær upplýsingar og setur saman fjáröflunardagatal sem er aðgengilegt á einum stað. Ef útlit er fyrir árekstra á milli fjáröflunarverkefna skulu deildir og landsskrifstofa leysa úr því með hagsmuni félagsins og skjólstæðinga þess að leiðarljósi.
 • Fjáröflunarverkefni sem deildir og landsskrifstofa taka þátt í í samstarfi við aðra skulu einnig skráð í fjáröflunardagatalið.
 • Ef nauðsyn eða tækifæri skapast fyrir fjáröflun sem ekki er í framkvæmdaáætlun en rými er fyrir hana í fjáröflunardagatali skal upplýsa landsskrifstofu um málið með eins  góðum fyrirvara og hægt er. Fjáröflunarfulltrúi landsskrifstofu bætir fjáröfluninni í dagatalið.

Kostnaður

 • Kostnaður vegna fjáröflunar, svo sem söfnun eða merkjasölu, skal að jafnaði ekki vera hærri en 25% prósent af áætluðum tekjum.
 • Kostnaður vegna sölu á varningi (s.s. húsnæðiskostnaður, sölukostnaður og skrifstofukostnaður), skal að jafnaði ekki vera meiri en 50%.
 • Ætíð skal leita leiða til að halda kostnaði vegna fjáröflunar í lágmarki, nýta krafta sjálfboðaliða og leita stuðnings fyrirtækja og einstaklinga til að lækka hann.
 • Framlag til verkefna vegna fjáröflunar jafngildir heildartekjum að frádregnum kostnaði. Stjórn Rauða krossins getur ákveðið að víkja frá þessari reglu.

4.    Fjáröflunarleiðir
Reglubundin fjáröflun

 • Söfnunarvefsíða, söfnunarreikningur og söfnunarsími Rauða krossins 904 1500 eru opin fyrir framlögum allan ársins hring.
 • Söfnun mannvina fer fram í gegnum vefsíðu og með reglubundnum átökum.
 • Landsskrifstofa greiðir allan kostnað vegna þessa og auglýsinga ef skyndilega þarf að safna fé  t.d. vegna neyðar eða hamfara.

Fatasöfnun

 • Verkaskipting: Deildir safna fötum og selja og dreifa til skjólstæðinga innanlands.Landsskrifstofa flytur út til sölu eða dreifingar til skjólstæðinga erlendis. Landsskrifstofa stendur fyrir sérsöfnunum í samráði við deildir og velunnara Rauða krossins. Deildir geta einnig staðið fyrir sérsöfnunum í samráði við landsskrifstofu.
  Ráðstöfun tekna: Hluta af tekjum er ráðstafað til deilda samkvæmt sérstökum reglum sem stjórn setur um fataverkefni Rauða krossins. Árlegt framlag til deilda verður 5 mkr. árin 2014 og 2015. Af því sem eftir stendur skulu:  Frá 1. júní 2014 til 1. janúar 2015:  65% fara til Hjálparsjóðs , 25% til Hjálparsímans og 10% til málsvarastarfs. Frá  og með 1. janúar 2015: 52% til Hjálparsjóðs, 25% til Hjálparsímans, 13% til Neyðarmiðstöðvar og  10% til  málsvarastarfs.
 • Staðbundnar safnanir
  Deildir (ein deild eða fleiri saman) geta staðið fyrir fjáröflun til áhersluverkefna. Upplýsingar um fjáraflanir skulu skráðar í fjáröflunardagatal. Uppgjör söfnunar er sent til fjáröflunarfulltrúa Rauða krossins.

Styrkir frá einstaklingum

 • Deildarstjórn tekur ákvörðun í samráði við framkvæmdastjóra Rauða krossins um hvort þiggja beri styrki til verkefna sem ekki eru á verkefnaskrá deildarinnar.
 • Styrkir sem einstaklingar vísa til Rauða krossins eða landsskrifstofu fara til verkefna sem tilgreind  eru eða ákveðin af stjórn Rauða krossins. Framkvæmdastjóri tekur ákvörðun um hvort þiggja beri styrki til verkefna sem ekki eru á verkefnaskrá félagsins.

Styrkir frá fyrirtækjum

 • Deildir (ein deild eða fleiri saman) geta sótt um styrki og stuðning við ákveðin verkefni frá fyrirtækjum sem eru staðbundin í þeirra heimabyggð. Landsskrifstofa getur sótt um styrki og stuðning við ákveðin verkefni frá stórfyrirtækjum og fyrirtækjum sem starfa á landsvísu.
 • Í undantekningartilfellum geta deildir sótt um styrki eða selt styrktarlínur til fyrirtækja sem starfa á landsvísu ef þau hafa starfsstöð í heimabyggð deildar. Forsenda þess er að upphæðin sem um sótt er um sé innan þess ramma að ákvörðun verði tekin af starfsfólki viðkomandi starfsstöðvar. Deildir skulu ekki sækja um styrki til slíkra starfsstöðva ef ljóst er að ákvörðun verður aðeins tekin í höfuðstöðvum viðkomandi fyrirtækis.

Styrkir frá sjóðum og ríkisstofnunum.

 • Landsskrifstofa aðstoðar deildir og samræmir styrkumsóknir til ýmissa sjóða, ráðuneyta og annarra ríkisstofnana og stéttarfélaga sem starfa á landsvísu.

Landssafnanir

 • Landsskrifstofa sinnir framkvæmd samkvæmt samþykki stjórnar hverju sinni og greiðir kostnað við söfnunargögn og auglýsingar á landsvísu.
 • Deildir og sjálfboðaliðar taka þátt í söfnun þegar það á við og greiða deildir kostnað við auglýsingar í svæðismiðlum sem þær telja nauðsynlegar.
 • Söfnunarfé rennur til þess verkefnis sem safnað er fyrir hverju sinni.

5.    Uppgjör

 • Uppgjör fjáröflunarverkefna fer fram eigi síðar en 30 dögum eftir að verkefni lýkur formlega. Sé um að ræða verkefni sem stendur lengur en einn mánuð skal gera uppgjör mánaðarlega. Uppgjör skal sent til fjáröflunarfulltrúa, sem tekur saman yfirlit mánaðarlega fyrir stjórn félagsins.
 • Hluti uppgjörs er að gerð er grein fyrir öllum kostnaði, þ.m.t. hlutdeild af fastakostnaði einstakra deilda og landsskrifstofu sem gjaldfærður er á verkefnið.
 • Gerð er sérstök grein fyrir uppgjöri fjáröflunarverkefna í ársskýrslu Rauða krossins og á aðalfundum félagsins.