Reglur um fataverkefni Rauða krossins

Samþykktar af stjórn 15. október 2020

Reglur um fataverkefni Rauða krossins

Eftirfarandi reglur voru samþykktar af stjórn 15. október 2020.

1. INNGANGUR

Eldri reglur um fataverkefni voru frá árinu 2011 og tímabært að sú endurskoðun, sem upphaflega stóð til að færi fram að þremur árum liðnum, fari fram. Þessar reglur eru settar með hliðsjón af niðurstöðum vinnuhóps um breytt fyrirkomulag fataverkefnisins frá október 2017, þróun verkefnisins síðustu ár og reynslu sem komin er á eldri reglur. Auk þess var höfð hliðsjón af athugasemdum deilda.

2. TILGANGUR, MARKMIÐ OG LYKILÞÆTTIR ÁRANGURS

Höfuðtilgangur verkefnisins er fjáröflun sem felur í sér að hámörkun arðsemi er endanlegt markmið verkefnisins. Verkefnið hefur einnig þann tilgang að útvega skjólstæðingum félagsins fatnað og er mikilvægt lóð á vogarskálarnar í umhverfisstefnu félagsins.

Rauði krossinn hefur skilgreint eftirfarandi lykilþætti árangurs í verkefninu:

1. Hámarka magn fatnaðar sem er flokkaður.

2. Hámarka magn fatnaðar sem selst.

3. Minnka hlutfall útflutnings og hámarka hlutfall þess magns sem selt er í okkar eigin verslunum innanlands.

4. Verðlagning í verslunum skal stuðla að hámarks arðsemi.

5. Hagstæðir samningar við kaupendur erlendis.

6. Markviss markaðssetning, þ.m.t. regluleg kynning á fatasöfnun og fataverslunum.

7. Auka hlutdeild sjálfboðaliða í verslunum og söfnun/flokkun.

8. Kostnaðaraðhald og stærðarhagkvæmni í rekstri verslana og söfnunar.

9. Lágmarka flutningskostnað innanlands og af útflutningi.

10. Framkvæmd sé með þeim hætti að hún styrki ímynd og orðspor Rauða krossins á Íslandi.

3. STJÓRNUN

Um er að ræða landsdekkandi verkefni undir heitinu „Fataverkefni Rauða krossins“. Landsskrifstofa ber ábyrgð á verkefninu í heild sinni á landsvísu: söfnun, flokkun og sölu. Meðal þess sem fellur undir stjórnun verkefnisins er:

· Yfirumsjón og samræming allra þátta verkefnisins.

· Stefnumörkun, áætlanagerð, viðskiptaþróun og fjárhagsleg umsýsla.

· Stuðningur við deildir og sjálfboðaliða, þ.m.t. þjálfun sjálfboðaliða.

· Söluhvetjandi aðgerðir, þ.m.t. kynningar- og markaðsmál.

· Gæðamál og verkferlar.

· Árangursmat og eftirlit með rekstri.

· Stærri ákvarðanir varðandi verkefnið s.s.um meiriháttar fjárfestingar skulu lagðar fyrir stjórn félagsins til samþykktar.

4. VERKASKIPTING

Verkaskipting miðar að því að ná sem mestri hagkvæmni og skilvirkni í rekstri verkefnisins og er með eftirfarandi hætti:

Höfuðborgarsvæði:

Landsskrifstofa sér um söfnun, flokkun og sölu á höfuðborgarsvæðinu og öflun svo og stjórnun sjálfboðaliða í samstarfi við sjálfboðaliðamiðstöð. Einnig rekstur flokkunarmiðstöðvar fyrir allt landið. Flokkunarmiðstöð sendir deildum fatnað samkvæmt pöntun.

Landsbyggð:

Söfnun fatnaðar á landsbyggð er í umsjá deilda á hverjum stað og er unnin af sjálfboðaliðum. Ráðstöfun þess fatnaðar sem safnast er með eftirfarandi hætti:

A. Þær deildir sem eru með söfnun eingöngu, tæma söfnunargáma á sínu svæði og senda þann fatnað sem safnast til flokkunarmiðstöðvar. Ávallt skal senda með samstarfsaðilanum Flytjanda sé þess kostur, sem flytur án endurgjalds fyrir RKÍ. Þar sem ekki er til staðar þjónusta Flytjanda skal leita eftir hagkvæmasta flutningskosti.

B. Þær deildir sem reka verslun/markað geta valið að flokka þann fatnað sem safnast á svæðinu, selja í verslun/á markaði og senda það sem ekki selst til flokkunarmiðstöðvar eða senda allan fatnað sem safnast á svæðinu óflokkaðan til flokkunarmiðstöðvar og fá flokkaðan fatnað frá flokkunarmiðstöð eftir óskum.

C. Eyjafjarðardeild flokkar fyrir sitt svæði, selur í verslun/á markaði og kemur þeim fatnaði sem ekki nýtist deildinni í gám sem fer beint til útflutnings.

5. REKSTUR VERSLANA

Verslanarekstur skal vera samræmdur eins og kostur er með hliðsjón af því að allar verslanir og markaðir undir merkjum Rauða krossins eru hluti af einni verslanakeðju. Stefnt skal að því að samræma vöruúrval, útlit, framsetningu og markaðssetningu eins og kostur er. Deild sem rekur verslun eða markað ber ábyrgð á að útlit og rekstur sé í samræmi við reglur þar að lútandi á hverjum tíma. Landsskrifstofa ber ábyrgð á að setja reglur og viðmið og framfylgja þeim.

Væntingar þeirra sem gefa Rauða krossinum fatnað eru að andvirðið renni til hjálparstarfs og þess vegna er mikilvægt að rekstrarhagkvæmni sé í fyrirrúmi í rekstri verslana. Almennt skulu sjálfboðaliðar sinna afgreiðslu í verslunum. Samkvæmt fjáröflunarreglum Rauða krossins á Íslandi skal kostnaður við sölu fatnaðar ekki vera meiri en 50% af tekjum. Frávik frá þessu eru heimil fyrstu 3 árin í rekstri nýrra verslana. Önnur frávik eru óheimil nema vegna sérstakra aðstæðna með samþykki landsskrifstofu.

6. RÁÐSTÖFUN TEKNA

Reglur þessar ná yfir alla sölu undir merkjum Rauða krossins, jafnt fatnaðar sem nytjamuna.

Deildir sem hafa tekjur af verkefninu sem eru undir 2 milljónum króna halda þeim tekjum óskertum. Af sölu umfram 2 milljónir renna 33% til Fataverkefnis.

Hagnaður Fataverkefnis skiptist í samræmi við fjáröflunarreglur félagsins á hverjum tíma.


FATAÚTHLUTANIR

Fataúthlutanir geta farið fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi geta deildir kosið að gefa hluta þess fatnaðar sem þær safna til skjólstæðinga sem glíma við sárafátækt eða aðra neyð. Einnig geta deildir og landsskrifstofa afhent fatnað til þessa skjólstæðingahóps með úthlutun fatakorta.

Kostnaðarverð þess fatnaðar sem greitt er fyrir með fatakortum á höfuðborgarsvæðinu skal vera fært til tekna hjá Fataverkefni og til gjalda sem hjálparstarf hjá þeirri deild eða því verkefni sem úthlutar korti. Viðmið um kostnaðarverð fyrir árin 2021-2023 er 33% af fjárhæð fatakorta, en skal endurskoðað að þeim tíma liðnum með hliðsjón af kostnaði við rekstur flokkunar- og söfnunarmiðstöðvar. Breyting á kostnaðarverðshlutfalli er tekin af stjórn og skal tilkynnt með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Þær deildir utan höfuðborgarsvæðisins sem úthluta með fatakortum skulu bóka alla sölu með fatakortum til tekna hjá deildinni, en sala með fatakortum fellur ekki undir skil til Fataverkefnis eins og önnur sala skv. 2. mgr. 6 greinar þessara reglna. Landsskrifstofa setur nánari reglur um framkvæmd fataúthlutana.