Reglur um einstaklingsaðstoð

Reglur um einstaklingsaðstoð Rauða krossins

Samþykkt á fundi stjórnar Rauða krossins 28. febrúar 2020.
 

  1. Rauði krossinn veitir í undantekningartilfellum fjárhagslegan stuðning við einstaklinga og fjölskyldur. Deildir setja sér vinnureglur og hafa formlegt utanumhald um verkefnið.
  2. Það er grundvallaratriði að Rauði krossinn vinni faglega að mati á þörf fyrir aðstoð þannig að farið sé eftir skýrum reglum og hlutlægni gætt í hvívetna. Hjálparþegar skulu sækja um aðstoð með formlegum hætti. Leitað skal samstarfs við félagsmálayfirvöld viðkomandi sveitarfélags eða sambærilegra fagaðila um mat á þörf umsækjenda fyrir aðstoðina. Úthlutun skal taka mið af neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara eins og þau eru á hverjum tíma.
  3. Fjárhagslegur stuðningur Rauða krossins (ekki matar- og fataúthlutun) skal einungis felast í því að greiða framlagða reikninga hjálparþega (rafmagn, húsaleiga o.s.frv.) eða í úthlutun úttektarkorta í verslunum eða inneignakort í banka.
  4. Hver deild Rauða krossins getur veitt allt að 10 % af kassatekjum sínum í aðstoð vegna varanlegrar neyðar. Deildir ákveða í fjárhagsáætlun hvaða upphæð þær ætla að veita í fjárhagslegan stuðning á hverju ári. Deildir geta, vegna sérstakra staðbundinna aðstæðna, veitt úr sjóðum sínum umfram þessa upphæð og gengist fyrir söfnunum í því augnamiði. Þess skal ætíð gætt að framlags Rauða krossins sé getið.
  5. Æskilegt er að Rauði krossinn taki þátt í samstarfi við önnur hjálparsamtök á hverjum stað. Samstarfið getur líka falið í sér upplýsingamiðlun í þeim tilgangi að einstaklingar og fjölskyldur þurfi ekki að leita hjálpar á mörgum stöðum. Skilyrði fyrir þátttöku Rauða krossins í samstarfi er að aðstoðin sé veitt með faglegum hætti, sbr. 2. grein.
  6. Stjórn deildar skipar nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir umsóknir um aðstoð og /eða fulltrúa í sameiginlega nefnd ef um samstarf fleiri aðila er að ræða. Nefndin skal veita fjárhagslegan stuðning í samræmi við mat fagaðila sem hlutfall af gildandi neysluviðmiði sbr. 2. gr. Í árslok skal nefndin leggja fyrir stjórn deildar greinargerð um úthlutunina og fjölda skjólstæðinga í hópi: Einstaklingar, fjölskyldusamsetning, fjöldi barna o.s.frv.), mat fagaðila og veittan stuðning. Nöfn styrkþega mega ekki koma fram í greinargerðinni enda skulu nefndarmenn gæta fyllsta trúnaðar gagnvart umsækjendum.
  7. Stjórn deildar skilar inn til landsskrifstofu greinagerð (eyðublað sent til deilda) um einstaklingsaðstoðina í ársbyrjun vegna undangengis árs.
  8. Fataúthlutun skal vera hluti af aðstoð Rauða krossins við einstaklinga og fjölskyldur í neyð.


Aðstoð vegna skyndilegrar neyðar
Rauði krossinn veitir einstaklingum neyðaraðstoð vegna óvæntra áfalla, svo sem náttúruhamfara, bruna eða slysa sem raska daglegu lífi þeirra svo mikið að þeir geta ekki ráðið fram úr þeim sjálfir. Um er að ræða tímabundna aðstoð sem varir almennt ekki lengur en tvo sólarhringa og miðast við nauðþurftir. Aðstæður hjálparþega geta verið með afar misjöfnum hætti og því ræður mat stjórnar hverrar deildar hvernig þessari neyðaraðstoð er að öðru leyti háttað hverju sinni en áhersla er lögð á að grundvallarreglur Rauða krossins séu virtar.

Aðstoð vegna varanlegrar neyðar
Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem geta ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Rauði krossinn sinnir almennt ekki framfærslu en getur tekið þátt í að létta byrðar þessa fólks með sjálfboðnu starfi en einnig með fjárframlögum, fatnaði og öðrum stuðningi sem þessar reglur kveða á um.