Reglur um meðferð brota félaga og sjálfboðaliða Rauða krossins

Reglurnar má finna hér í pdf útgáfu

Reglur um meðferð brota félaga og sjálfboðaliða Rauða krossins 
- samþykktar af stjórn 19. nóvember 2020 -


1. gr. gildissvið

Reglur þessar taka til:
          a) ætlaðra brota á siðareglum Rauða krossins , sbr. 3. gr.,
          b) ætlaðra ofbeldisbrota í starfi Rauða krossins, sbr. 4. gr.,
          c) ætlaðra brota á grunngildum, lögum og reglum eða trúnaði í starfi Rauða krossins, sbr. 5. gr. og
          d) annarra ætlaðra alvarlegra brota sem tengjast ekki starfi Rauða krossins með beinum hætti en                         geta haft áhrif á starf og heiður félagsins, sbr. 6. gr.

2. gr. tilkynningarskylda

Félagar, sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins skulu vera vakandi fyrir því að grunngildi félagsins, lög, reglur og trúnaður sé hafður í heiðri hjá Rauða krossinum.
Verði félagar, sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins þess áskynja að það sem fram kemur í 1. mgr. hafi verið brotið skal viðkomandi tilkynna um það til mannauðsteymis landsskrifstofu, deildarstjórnar í viðkomandi deild eða siðanefndar, eftir því sem við á og nánar greinir í reglum þessum.

3. gr. brot á siðareglum

Hafi félagar, sjálfboðaliðar eða starfsfólk Rauða krossins grun um brot á siðareglum skal viðkomandi vísa málinu til siðanefndar Rauða krossins.
Siðanefnd hefur það hlutverk að skera úr um hvort siðareglur hafi verið brotnar. Siðanefnd skilar niðurstöðum sínum skriflega til stjórnar. Ef niðurstaða siðanefndar gefur tilefni til brottrekstrar tekur viðkomandi deildarstjórn eða framkvæmdastjóri (eða annar stjórnandi landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) við málinu.
Deildarstjórn eða framkvæmdastjóri (eða annar stjórnandi landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk), sbr. 2. mgr., geta vísað félaga og sjálfboðaliða úr verkefnum á sínum vegum úr Rauða krossinum, tímabundið eða að fullu, þegar niðurstaða siðanefndar um brottrekstur liggur fyrir og gefur tilefni til.
Siðanefnd tekur við erindum skv. 1. mgr. en getur einnig tekið mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga Rauða krossins.

4. gr. ætluð ofbeldisbrot í starfi

Vakni grunur um einelti innan Rauða krossins (skv. reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislega áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum), ofbeldi eða áreitni (skv. jafnréttislögum) skal tilkynna slíkt til mannauðsteymis landsskrifstofu.
Teymi sérfræðinga í málefnum um ofbeldi tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og vinnur eftir ferlum Rauða krossins í ofbeldismálum. Teymið getur lagt til að gerandi verði færður til í starfi eða stígi til hliðar meðan málið er í vinnslu. Í teymi sitja mannauðsstjóri, sálfræðingur og tengiliður úr sjálfboðaliðamiðstöð í tilfellum sjálfboðaliða. Ef þeir aðilar eru nátengdir málinu er málinu vísað til utanaðkomandi aðila.
Niðurstaða teymis skv. 2. mgr. er tilkynnt deildarstjórn viðkomandi sjálfboðaliða/félaga eða framkvæmdastjóra (eða annars stjórnanda landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk).
Deildarstjórn eða framkvæmdastjóri (eða annar stjórnandi landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) getur vísað félaga og sjálfboðaliða úr verkefnum á sínum vegum úr Rauða krossinum, tímabundið eða að fullu, þegar tillaga eða niðurstaða mannauðsteymis skv. 2. og 3. mgr. liggur fyrir og gefur tilefni til.

5. gr. brot á grunngildum o.fl.

Vakni grunur hjá deildarstjórn eða framkvæmdastjóra (eða annars stjórnanda landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) um brot sjálfboðaliða eða félaga á grunngildum félagsins, lögum, reglum eða trúnaði, er viðkomandi félagi eða sjálfboðaliði boðaður í viðtal með fulltrúa deildarstjórnar eða stjórnanda á landsskrifstofu (sem fer með mál eða málaflokk) við þriðja mann, tengilið úr sjálfboðaliðamiðstöð, mannauðsstjóra eða sálfræðing félagsins.
Í viðtali skv. 1. mgr. er viðkomanda gerð grein fyrir gruni um brot og reglur þessar kynntar fyrir honum. Viðkomanda er veittur tveggja vikna frestur frá viðtali til að skýra mál sitt, skriflega eða munnlega, fyrir deildarstjórn eða framkvæmdastjóra (eða öðrum stjórnanda landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk). Deildarstjórn eða framkvæmdastjóra (eða öðrum stjórnanda landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) er unnt að á þeim tíma að víkja sjálfboðaliða tímabundið úr starfi eða færa til í störfum.
Deildarstjórn eða framkvæmdastjóri (eða annar stjórnandi landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) getur vísað félaga og sjálfboðaliða úr verkefnum á sínum vegum úr Rauða krossinum, tímabundið eða að fullu, ef hann hefur í störfum sínum án vafa unnið gegn grunngildum félagsins, brotið lög þess, reglur eða trúnað, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga Rauða krossins.

6. gr. önnur brot

Deildarstjórn eða framkvæmdastjóri (eða annar stjórnandi landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) getur vikið félaga tímabundið, fært sjálfboðaliða til í starfi eða vikið úr starfi sé sterkur grunur um að viðkomandi hafi framið glæpsamlegt athæfi er varðar landslög og getur haft áhrif á hæfni hans í störfum fyrir Rauða krossins eða hætta sé á að brot hans geti skaðað ímynd félagsins.
Um málsmeðferð tilvika skv. 1. mgr. fer, eins og við getur átt, eftir 5. gr.

7. gr. tilkynningar

Ákvörðun um brottrekstur úr Rauða krossinum skal tilkynnt viðkomandi skriflega. Ákvörðun um brottvikningu skal tilkynnt stjórn Rauða krossins á Íslandi.

8. gr. endurskoðun ákvörðunar

Félagi eða sjálfboðaliði getur, innan tveggja vikna frá dagsetningu tilkynningar, sbr. 7. gr., um ákvörðun deildarstjórnar eða framkvæmdastjóra (eða annars stjórnanda landsskrifstofu sem fer með mál eða málaflokk) um brottvikningu, andmælt ákvörðuninni og óskað endurskoðunar stjórnar Rauða krossins á Íslandi.
Máli skv. 1. mgr. skal tekið fyrir á næsta fundi stjórnar og er niðurstaða stjórnar Rauða krossins endanleg.

9. gr. innganga að nýju

Tveimur árum frá brottrekstri getur félagi eða sjálfboðaliði sótt um inngöngu eða sótt um að starfa að nýju með skriflegu erindi til stjórnar Rauða krossins. Stjórn tekur málið til skoðunar og svarar erindi skriflega til viðkomandi aðila, deildarstjórnar og framkvæmdastjóra.

10. gr. þagnarskylda og persónuvernd

Þeim sem koma að málum er varðar brot eða gruns um brot félaga eða sjálfboðaliða er skylt að gæta þagmælsku og óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar um það.
Fara skal með öll gögn og upplýsingar sem tengjast einstökum málum í samræmi við gildandi ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.