Brottvikning - reglur um meðferð

Brottvikning úr Rauða krossinum

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins eru vakandi fyrir því að hafa lög og reglur félagsins í heiðri. Verði einhver þess áskynja að reglur hafi verið brotnar gerir viðkomandi viðvart um það með því að beina erindi til deildarstjórnar, stjórnar félagsins eða siðanefndar, eftir því sem við á. 

1. Deildarstjórn getur vísað félaga úr Rauða krossinum, tímabundið eða að fullu, ef hann hefur að mati hennar brotið alvarlega gegn lögum félagsins, öðrum reglum, samþykktum eða ákvörðunum. (Sbr. lög Rauða krossins, 4. gr. 5. tl.) Sé grunur um brot á siðareglum skal vísa málinu fyrst til siðanefndar Rauða krossins. Siðanefnd hefur það hlutverk að skera úr um hvort siðareglur félagsins hafi verið brotnar. Nefndin tekur við erindum en getur einnig tekið mál upp að eigin frumkvæði. (Sbr. lög Rauða krossins,4. gr. 7. tl.) 

2. Hafi siðanefnd ekki fjallað um brottvísun skal félaga veittur hæfilegur frestur til að skýra mál sitt, skriflega eða munnlega, fyrir deildarstjórn áður en ákvörðun um brottvikningu er tekin. 

3. Ákvörðun deildarstjórnar skal tilkynnt viðkomandi félaga skriflega. Hún skal einnig tilkynnt stjórn Rauða krossins. 

4. Félagi getur, innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun deildarstjórnar um brottvikningu, andmælt ákvörðuninni og áfrýjað til stjórnar Rauða krossins á Íslandi. 

5. Niðurstaða stjórnar Rauða krossins er endanleg. 

Samþykkt á stjórnarfundi 18.01.2013