Barna- og ungmennastarf

1. Hvað er ungmennastarf?

Ýmsar deildir Rauða krossins hafa á undanförnum árum lagt talsverða vinnu í að halda úti barna- og ungmennastarfi þar sem börn koma saman í húsnæði sem deildir hafa yfir að ráða. Þetta á einkum við um stærri deildir. Oft hefur reynst erfitt að ná saman nægjanlega stórum hópi sem kemur saman reglulega. Auk þess að vera með félagsstarf fyrir börn og ungmenni leitast deildir við að tengja börn og ungmenni inn í almenn verkefni deildanna. Deildir hafa einnig unnið að því að nálgast börn og ungmenni með fræðslu og verkefnavinnu, s.s. í skólum og benda þeim á möguleika á að gerast sjálfboðaliðar þótt þau þurfi jafnvel að bíða í einhver ár til að hafa aldur til að taka að sér ákveðin verkefni.

Markmið
Markmið með starfi deilda sem snýr að börnum og ungmennum skal vera í samræmi við lög og stefnu Rauða krossins á Íslandi. Ef deild skipuleggur félagsstarf fyrir ungmenni þarf auk þess að liggja fyrir þarfagreining hverju sinni sem sýnir fram á þörfina fyrir það.

Tegund verkefna
Barna- og ungmennastarf þarf ekki alltaf að vera hópastarf þar sem hópur barna á svipuðum aldri kemur saman. Starfið getur einnig flokkast sem kynningar- og/eða fræðslustarf í skólum og félagsmiðstöðvum. Einnig getur fulltrúi Rauða krossins komið með kynningu á starfi félagsins á vettvangi þar sem ungt fólk er að störfum, s.s í vinnuskólum eða hjá öðrum félagasamtökum á borð við Skátana.

Þegar skilgreina á ungmennastarf getur verið um að ræða þátttöku ungmenna í almennum verkefnum deilda, s.s. fataverkefnum, heimsóknaþjónustu, fjáröflun, neyðarvörnum, heimanámsaðstoð og stjórnarsetu, allt eftir aldri og áhugasviði viðkomandi. Þegar tombólubörn fá fræðslu skilgreinist það sem ungmennastarf. Á ýmsan hátt er því hægt að tengja börn og ungmenni í ríkari mæli við starf deilda.

Gátlisti um möguleg verkefni fyrir ungmenni á vegum deildar

  • Er hægt að bjóða ungmennum að taka þátt í almennum sjálfboðaverkefnum á vegum deildarinnar? Ef svo er hvaða verkefnum og hvernig?
  • Er e.t.v. hægt að sníða verkefni deildarinnar þannig að þau henti betur fyrir ungmenni, þ.e. gera þau áhugaverð og aðgengileg fyrir ungmenni?
  • Er ástæða til að búa til sér verkefni hjá deildinni sem fela í sér sjálfboðið starf ungmenna? (Dæmi: heimsóknir/stuðningur ungmenna við önnur börn og ungmenni)
  • Er ástæða til að bjóða upp á reglubundið hópastarf fyrir ungmenni á starfssvæði deildarinnar sem felur m.a. í sér fræðslu og þematengda verkefnavinnu?
  • Eru möguleikar á því að tengja Rauða kross starf inn í grunnskóla og/eða framhaldsskóla á svæðinu? Ef svo er hvernig? (t.d. fræðsla, verkefnavinna nemenda, áfangar um sjálfboðið starf)
  • Er ástæða til að virkja ungmenni í auknum mæli í ákveðin átaksverkefni hjá deildinni?
  • Er ástæða til að hvetja ungmenni í auknum mæli til að taka að sér stjórnarsetu hjá deildinni?
  • Ef hópur ungmenna starfar fyrir deildina, er ástæða til að umbuna þeim hópi sérstaklega, s.s. með sérstökum viðburðum/upplyftingu fyrir þá? Nægir e.t.v. að bjóða ungmennunum á viðburði fyrir alla sjálfboðaliða deildarinnar?

2. Framkvæmd verkefna ætluð sérstaklega fyrir ungmenni

Fjármögnun og ábyrgð
Þegar deildir ákveða að hefja skipulagt ungmennastarf er mikilvægt að ákveða það formlega og taka jafnframt ákvörðun um fjármögnun verkefnisins. Skipa þarf verkefnisstjóra úr röðum sjálfboðaliða (eða hugsanlega starfsmanna þar sem það á við) sem ber ábyrgð á starfinu og framkvæmd þess. Við fjármögnun er vert að hafa í huga möguleika á styrkjum, s.s. úr Æskulýðssjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fjáröflunarfulltrúi landsskrifstofunnar veitir ráðgjöf um slíkar styrkumsóknir.

Aldur
Í upphafi þarf að ákveða fyrir hvaða aldurshóp eða markhóp starfið eða fræðslan er ætluð. Ef um er að ræða hópastarf hjá deild eða deildaráði hefur reynst vel að skipta þátttakendum upp í hópa eftir aldri eða jafnvel skólastigum, s.s. miðstig grunnskóla, unglingastig og framhaldsskólastig. Ef um er að ræða t.d. heimsókn í skóla er gott að heimsækja ákveðinn aldurshóp í einu því fræðsla þarf að taka mið af aldri barnanna. Til þess að ná til þátttakenda er æskilegt að hópurinn sé ekki of stór.

Tímasetningar
Ef um reglubundið hópastarf er að ræða þarf að festa niður tímasetningar og er æskilegast að hafa starfið alltaf á sama tíma til að skapa rútínu, t.d. á sama vikudegi, þó svo að einstaka verkefni hópsins geti í einhverjum tilvikum fallið utan hins hefðbundna tímaramma. Auglýsa þarf hvenær dagsins starfið stendur yfir og á hvaða tímabili um vetrar- eða sumartímann.

Húsnæði
Fyrir reglubundið hópastarf er æskilegt að velja hentugt húsnæði m.t.t. samþykktrar reglugerðar þar um. Ef húsnæði er samnýtt með öðrum er gott að geta geymt verkefni í húsnæðinu, eins og t.d. að láta veggspjöld hanga uppi.

Ráðning leiðbeinenda/sjálfboðaliða
Ráðning leiðbeinenda í hópastarf barna- og ungmenna er á vegum deilda eða deildaráða. Vanda þarf val á þeim einstaklingum sem starfa með börnum og ungmennum innan Rauða krossins, hvort sem um er að ræða sjálfboðaliðastörf eða launuð störf. Æskilegt er að leiðbeinandi hafi reynslu af því að vinna með börnum og ungmennum. Mikilvægt er að kanna bakgrunn leiðbeinenda, afla umsagna og kanna hvort viðkomandi sé á skrá vegna ofbeldisbrota. Alltaf skal leitast við að hafa a.m.k. tvo leiðbeinendur starfandi í hópastarfinu. Sjá nánari upplýsingar um störf leiðbeinenda samkvæmt barnaverndarreglum Rauða krossins.

Afla þarf upplýsinga úr sakaskrá fyrir alla leiðbeinendur sem gefa kost á sér í starf með börnum og ungmennum á vegum félagsins. Rauði krossinn í Reykjavík tekur að sér að óska eftir þessum upplýsingum fyrir deildir. Nánari upplýsingar í Sjálfboðamiðstöð Reykjavíkurdeildar í síma 545 0417.

Þjálfun/undirbúningur leiðbeinenda
Rauða kross deild sem ræður leiðbeinanda í barna- og ungmennastarf þarf að bjóða leiðbeinanda upp á fræðslu sem tengist Rauða kross starfi. Mikilvægt er að leiðbeinandi fái þjálfun í skyndihjálp og meðferð agavandamála og þekki barnaverndarreglur Rauða krossins.

Verklýsing fyrir leiðbeinendur og almenna sjálfboðaliða í ungmennastarfi
Deildin ber ábyrgð á því að hópstjórar og leiðbeinendur fái í hendur verklýsingu þar sem fram kemur ítarleg lýsing á hlutverki þeirra og hvers sé krafist af þeim í starfi, réttindum og skyldum.

Kynning á starfinu bæði til barna og forráðamanna
Ef um hópastarf er að ræða er mikilvægt að foreldrar séu ávallt upplýstir um starfið með fundum og/eða bréfasamskiptum. Það skapar traust og öryggi beggja aðila. Foreldrar eru líklegri til að hvetja börnin til að halda starfinu áfram ef þeir eru vel upplýstir. Það er góð regla og skemmtileg að bjóða foreldrum af og til á uppákomur sem börnin standa fyrir. Auk þess má útbúa kynningarbréf sem börnin eru hvött til að ræða um heima.

Ef deild ákveður að hefja hópastarf er upplagt að kynna starfið á þeim stöðum þar sem börn og unglingar koma saman. Fara má í skóla og/eða í félagsmiðstöðvar auk þess sem hægt er að útbúa ýmiskonar kynningarefni, s.s. á veggspjöldum, vefmiðlum og með dreifibréfum án mikils tilkostnaðar.

Skráning
Í sumum tilfellum þarf að fara fram skráning á börnum og ungmennum í starfi deildar. Það á auðvitað ekki við þegar um fræðslu- eða kynningarstarf er að ræða. Þegar skráningar er þörf þarf, í upphafi starfs og þegar nýir þátttakendur slást í hópinn, að skrá eftirfarandi upplýsingar: Nafn barns, kennitölu, heimilisfang, símanúmer, netfang, nafn forráðamanns og upplýsingar um heilsufar barnsins. Sjá skráningarform á vef félagsins undir ungmennastarf.

Öryggismál
Ef um formlegar samverur, námskeið eða félagsstarf er að ræða þarf að hafa ákveðin öryggismál í huga. Ávallt ber að gera miklar kröfur til þess að barnið njóti verndar og öryggis í leik og starfi. Nauðsynlegt er því að leiðbeinendur séu starfi sínu vaxnir og sinni sínum lagalegu skyldum þar að lútandi.

Það er réttur foreldra að þeim séu kynntar þær öryggisreglur sem farið er eftir í viðkomandi starfi. Þar með talin eru eftirfarandi atriði:

-    Fjöldi leiðbeinenda, kunnátta þeirra, aldur, þjálfun og reynsla
-    Framkvæmd vettvangsferða, s.s. foreldrasamþykki
-    Ákveðin dagskrá
-    Tryggingamál
-    Meðferð aga- og barnaverndarmála
-    Öryggismál í umhverfi starfsins, s.s. brunavarnir, sjúkratöskur og annað
-    Barnaverndarreglur Rauða krossins

Fjöldi leiðbeinenda
Nauðsynlegt er að tryggja nægilegan fjölda leiðbeinenda svo þeir hafi góða yfirsýn yfir starf og líðan barnanna. Fjöldi leiðbeinenda fer eftir aldri og fjölda þátttakenda. Auk þess kemur fram í Barnaverndarreglum Rauða krossins að alltaf skuli hafa tvo leiðbeinendur hverju sinni og almennt gildi sú regla að ef hópurinn sé stór sé gert ráð fyrir einum leiðbeinanda á hverja átta einstaklinga.

Framkvæmd vettvangsferða - foreldrasamþykki
Þegar farið er í vettvangsferðir með börnin/ungmennin og notast þarf við flutningstæki af einhverri gerð er mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt. Æskilegast er að nýta almennings-samgöngur eða rútur en reynist nauðsynlegt að flytja börnin með einkabílum skulu foreldrar fá að vita af því og gefa fyrir því skriflegt leyfi. Reyndar skal alltaf fara fram á skriflegt leyfi foreldra ef áætlað er að ferðin taki lengri tíma en hefðbundið starf gerir ráð fyrir. Að öðru leyti ættu viðfangsefni að koma fram í dagskrá sem send er til foreldra/forráðamanna.

Meðferð agavandamála
Mikilvægt er að leiðbeinendur hafi fengið fræðslu um agastjórnun og jákvæðar uppeldisaðferðir áður en starfið hefst. Í upphafi skulu aðstandendur starfsins einnig koma sér saman um það hvernig tekið verði á agabrotum, bæði varðandi agavandamál barnanna og ekki síður leiðbeinendanna. Slíkt skal vera skriflegt þannig að hægt sé að grípa í ákveðna verkferla sem deildin kemur sér upp. Einnig er gott að börnin taki sjálf þátt í að búa til einfaldar reglur (4-5) sem þau koma sér saman um að fara eftir.

Slysaáætlun/viðbragðsáætlun
Ef slys verða í starfinu er mikilvægt að til sé slysaáætlun þar sem fram kemur verkstjórn, boðleiðir og ábyrgð. Góður undirbúningur og skipulag eykur hæfni manna til að bregðast skynsamlega við ef slys eða alvarleg veikindi ber að höndum.

Að sjálfsögðu getur kunnátta í skyndihjálp komið í veg fyrir frekari skaða ef slys ber að höndum. Þess vegna er skilyrði að leiðbeinendur og starfsmenn séu vel að sér í skyndihjálp og viðhaldi kunnáttunni. Stundum er gerð lögregluskýrsla ef um alvarleg slys er að ræða og tryggingafélög geta krafist skýrslu um atvikið.

3. Barnavernd

Barnaverndarreglur Rauða krossins má nálgast hér .

Lög um vernd barna og ungmenna má nálgast hér.

Frekari upplýsingar og ráðgjöf varðandi barna- og ungmennastarf Rauða krossins er hjá félagssviði landsskrifstofu Rauða krossins, s. 570 4000.

4. Leikjabanki

Leikjavefurinn