Ársreikningar og ársskýrslur

Reglur um framsetningu reikningsskila deilda skv. 2. málsgr. 15. gr. og um hvernig reikningar skulu færðir, framsettir og endurskoðaðir og um skýrslugerð deilda og deildaráða til landsskrifstofu skv. 5. málsgr. 22. gr. Samþykkt á stjórnarfundi Rauða krossins 20.06. 2018. 

Ársreikningar

1. Ársreikningur deildar skal gefa glögga mynd af starfsemi hennar, þannig að lesandi reikningsins sjái með skýrum hætti hvernig tekjum og eignum deildarinnar hefur verið varið á viðkomandi ári.

2. Í rekstrarreikningi skal sýna helstu tekjuliði, svo sem kassatekjur, fjármunatekjur og styrki.  Séu tekjur af einstökum lið meiri en 10 m.kr. er skylt að sýna þann tekjulið sérstaklega í ársreikningi.

3. Í rekstrarreikningi skal sýna helstu kostnaðarliði, svo sem kostnað við almennan rekstur og kostnað við helstu verkefni deildarinnar.  Sýna skal kostnað við áhersluverkefni félagsins (skv. samþykkt aðalfundar) og þrjú stærstu verkefnin fyrir utan þau (sé um slík verkefni að ræða). Séu útgjöld einstakra annarra verkefna (þ.e. annarra en áhersluverkefna og þriggja stærstu þar fyrir utan) hærri en 10 m.kr. er skylt að sýna kostnað við þau verkefni sérstaklega í ársreikningi.

4. Launakostnaður skal færður á verkefni þegar ljóst er að hann tilheyrir því verkefni alveg eða að hluta til.  Launakostnaður skal einungis færður á almennan kostnað við starf deildar þegar ekki á við að færa hann á verkefni.  Sýna skal heildarlaunakostnað deildar, annað hvort í rekstrarreikningi eða í skýringu í ársreikningi.

5. Í efnahagsreikningi skal gera grein fyrir eignum, svo sem bankainnistæðum, verðbréfum og fasteignum.  Í tölu yfir bankainnistæður í efnahagsreikningi skulu koma fram allar bankainnistæður sem skráðar eru á kennitölu deildar.

6. Í efnahagsreikningi skal sýna sérstaklega eigið fé og sömuleiðis skuldir, séu þær til staðar.

7. Deildaráð gerir ekki ársreikning heldur koma tekjur og gjöld verkefna þess fram í ársreikningum þeirra deilda sem mynda deildaráðið.   Deildirnar skipta kostnaði/tekjum vegna tiltekins verkefnis á milli sín og hver deild sýnir einungis sinn hlut í ársreikningi sínu.

Ársskýrsla

Ársskýrsla er lýsing á starfsemi ársins. Skýrslan er fyrst og fremst endurgjöf eða uppgjör á framkvæmdar- og fjárhagsáætlun liðins árs, þ.e. greinir frá því hvernig til tókst við að ná þeim markmiðum sem sett voru þar fram. Skýrsla formanns sem lesin er upp á aðalfundi og ársreikningur. 

8. Skýrslu formanns skal skilað til landsskrifstofu í síðasta lagi daginn sem aðalfundur deildarinnar er haldinn, skilað skal í rafrænu formi (textaskjal).

9. Árituðum og samþykktum ársreikningi skal skilað til landsskrifstofu í eigi síðar en 15. mars. 

Verkefnalisti, gerð grein fyrir hverju verkefni sérstaklega
a) markmið verkefnis
b) lýsing á verkefni, hvað var gert, hvernig það var gert, hversu margir sjálfboðaliðar tóku þátt í verkefninu o.s.frv.
c) hvernig fór þarfagreining fram og niðurstöður hennar
d) hvort mælanlegum markmiðum var náð og ef ekki hvers vegna

Tölulegar upplýsingar
a) fjöldi sjálfboðaliða með sjálfboðaliðasamning, fjöldi fjöldahjálparstjóra og félaga
í deildinni (afritast úr nafnaskrá)
b) fjöldi stjórnarfunda á árinu, dagsetning aðalfundar og hversu margir mættu
c) stöðugildi og fjöldi starfsmanna
d) fjöldi fatapakka í verkefninu Föt sem framlag
e) fjöldi sjálfboðaliða sem vann sjálfboðið starf í a.m.k. 4 stundir á ári
b) fjöldi beinna og óbeinna notenda starfseminnar, það er að segja fjöldi einstaklinga sem nutu góðs af starfi deildarinnar á árinu.

Yfirlit
a)  Aðgerðir deildar í umhverfismálum.
b)  Heildaryfirlit yfir starfsemi deildarinnar á árinu til dæmis skýrsla formanns.
c)  Í lok aðalfundar deilda þarf að uppfæra stjórnarupplýsingar á vef félagsins og í sjálfboðaliðakerfi félagsins. Þessum upplýsingum skal skilað til landsskrifstofu eða svæðisfulltrúum þar sem þeir eru.