Skyndihjálp

Útbreiðsla skyndihjálpar hefur verið eitt af meginverkefnum Rauða krossins á Íslandi í um 80 ár. Allt frá stofnun Rauða kross hreyfingarinnar í Genf árið 1863 hefur verið lögð höfuðáhersla á skyndihjálp hjá landsfélögum Rauða krossins um allan heim. Innan hreyfingarinnar er mikil þekking á skyndihjálp og hefur Rauði krossinn á Íslandi átt í góðu samstarfi við landsfélög víða um heiminn á þessu sviði. Samstarf félagsins við hinar ýmsu stofnanir í Evrópu á sviði endurlífgunar, umferðaröryggismála og kennslufræða, hefur stuðlað að uppbyggingu og þróun á skyndihjálp innan félagsins.

Í lok nóvember 2001 var undirritað samkomulag á milli Rauða krossins á Íslandi og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um hlutverk og ábyrgð félagsins í skyndihjálp. Markmiðið með samkomulaginu er að efla og breiða út þekkingu í skyndihjálp hér á landi.

Félagið býður upp á margs konar vönduð og hagnýt námskeið í skyndihjálp. Námskeiðin eru sniðin að þörfum ýmissa markhópa, s.s. almennings, fagaðila og fyrirtækjastarfsmanna, t.d. hvað varðar tímalengd og efnistök.

Á námskeiðum er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð og einfaldar aðferðir í skyndihjálp og er þátttakendum jafnan gefinn kostur á að tileinka sér þekkingu og verklega færni í að veita slösuðum og bráðveikum aðstoð. Á námskeiðunum eru notaðar fjölbreyttar kennsluaðferðir. Þeirra á meðal eru fyrirlestrar, umræður, sýnikennsla, verklegar æfingar og ýmiss konar einstaklings- og hópverkefni.

Fræðsluefnið er gefið út af Rauða krossinum og er það bæði í máli og myndum.

Lengd námskeiðanna er annars vegar gefin upp í 40 mínútna kennslustundum og hins vegar í klukkustundum sem er í raun viðmiðunarlengd hvers námskeiðs með hléum.  Sama námskeiðið, t.d. skyndihjálp 12 klukkustundir (16 kennslustundir) getur verið mislangt, allt eftir aðstæðum hverju sinni, í því sambandi skiptir máli hvernig námskeiðinu er skipt upp og hversu mörg eða löng hlé eru tekin.

Athugið: Þær Rauða kross deildir sem halda reglulega skyndihjálparnámskeið fyrir almenning eru sérstaklega hvattar til að bjóða upp á bæði stutt og löng námskeið.

Athugið: Rauði krossinn viðurkennir einungis þau námskeið sem haldin eru með vitneskju og umboði landsskrifstofu eða deilda Rauða krossins. Nauðsynlegt er að skrá námskeið í Salesforce kerfið (eða á skráningarvef námskeiða).

Athugið: Deildir Rauða krossins geta eftir atvikum vísað fyrirspurnum fyrirtækja um námskeið til landskrifstofu.

Leiðbeinendur
Leiðbeinendur sem halda námskeið á vegum Rauða krossins þurfa að hafa gild leiðbeinendaréttindi. Leiðbeinendur viðhalda þekkingu sinni og færni með því að sækja reglulega endurmenntunarnámskeið eða fyrirlestra á sínu sérsviði.