Vertu næs - áskorun

15.9.2015

Ágæta stjórnarfólk.

Nú er komið að næsta skrefi í átaki Rauða krossins Vertu næs, en átakinu var hleypt af stokkunum í apríl á þessu ári. Þetta er hluti af málsvarastarfi félagsins sem ákveðið var á síðasta aðalfundi.

Í örstuttu máli snýst átakið um það að „vera næs” við náungann, burtséð frá því hvaðan hann upprunninn, hverrar trúar hann er eða af hvaða litarafti.
Markmið átaksins er að hvetja alla til að líta í eigin barm varðandi það hvernig við getum aukið skilning og upprætt fordóma og hvetja til umræðu um stöðu fólks af erlendum uppruna og afleiðingar fordóma í þeirra garð.

Eins og áður er markhópurinn fólk sem lætur sér málið ekki varða, þeir sem telja sig ekki vera fordómafulla en aðhafast þó lítið eða ekkert ef þeir verða vitni að mismunun eða óréttlæti gagnvart fólki af erlendum uppruna.

Skrefið sem við erum að taka núna snýst um áskorun, og við viljum hvetja ykkur sjálfboðaliða og stjórnarfólk deilda til að taka þátt í henni. Það er einfaldlega gert með því að fara inn á síðuna www.vertunaes.is og taka áskoruninni. Annars vegar erum við að biðla til einstaklinga og hins vegar til vinnustaða. Við biðjum því ykkur um að hvetja aðra í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama hvort sem það eru einstaklingar eða vinnustaðahópar. Þessi hluti átaksins hefst formlega þann 16. september og stendur í mánuð.

Ein af áskorununum snýst um að taka þátt í starfi Rauða krossins með innflytjendum. Mögulega munu því einhverjir áhugasamir setja sig í samband við ykkur til að spyrja út í verkefni ykkar deildar í þágu innflytjenda.

Fjöldi deilda stendur fyrir blómlegu starfi í þágu innflytjenda og geta tekið við nýjum sjálfboðaliðum í þau verkefni, en aðrar ekki. Einhverjar deildir félagsins  munu líklega þó koma að væntanlegri móttöku flóttamanna og geta skráð niður sjálfboðaliða í þau verkefni. Þær deildir sem ekki eru í verkefnum í þágu innflytjenda geta einnig bent áhugasömum  að taka þátt í verkefninu  „Brjótum ísinn -  bjóðum heim“ sem er á landsvísu en Kópavogsdeild heldurutan um, enn sem komið er. Sjá nánar: http://www.raudikrossinn.is/page/rki_kopavogur_brjotumisinn

En að sjálfsögðu hvetjum við allar deildir einnig til að nota tækifærið og auglýsa önnur verkefni sem nú þegar eru í gangi. Eins er lag að huga að þörfinni fyrir ný verkefni í þágu innflytjenda eins og margar deildir hafa þegar rætt á í tengslum við stöðugreiningar sem hafa verið í gangi víða síðan á vormánuðum eða eru að hefjast núna í haust.

Bestu kveðjur,
Guðný H. Björnsdóttir,
sviðstjóri deildaþjónustu