Afmælisárið - helstu áherslur

7.11.2013

Ágætu formenn deilda Rauða krossins á Íslandi,

Kærar þakkir fyrir síðast og takk fyrir góð viðbrögð við áætlun afmælisherferðarinnar.

Mér datt í hug hvort það myndi ekki nýtast ykkur vel að fá helstu upplýsingarnar frá mér í pósti svo allir muni hvað ég sagði og séu vel upplýstir.

Landskrifstofa leggur til efni í herferðina og útbýr markaðsskipulag með sérfræðingum. Frumkvæði ykkar er vel þegið þannig að ef þið eruð með hugmyndir, endilega hafið samband við mig og við skoðum hvernig og hvort við getum komið ykkar hugmyndum inn í stóra planið  Einnig getið þið rætt um þessi mál við Gunnhildi þegar hún kemur til ykkar á næstunni. (nóv, des, jan) Hún mun ræða þessi mál frekar, kynna hugmyndir okkar og þá gefst gott tækifæri fyrir allar deildir að viðra hugmyndir sínar við hana.

Mikilvægt er að á þessum fundum sé viðstaddur sá aðili sem kemur að skyndihjálparkynningum eða námskeiðum hjá hverri deild.

Til þess að herferðin nýtist deildunum sem best þurfum við að samræma aðgerðir. Leggjum áherslu á 4 klst og 12 klst námskeið, bjóðum upp á stutt tveggja tíma námskeið, sérsniðið að afmælisárinu, þar sem er farið í fjóra áhersluþætti herferðarinnar og einnig klukkutíma kynningu til að fara með í skóla eða á vinnustaði. Gunnhildur er að vinna að kynningunni og nýja námskeiðinu, sem hún mun kynna fyrir ykkur síðar.

Hugmyndin er að leggja áherslu á námskeiðshald í mánuðunum Mars – Apríl – Maí – strax í kjölfar vals skyndihjálparmanns ársins, útkomu lagsins og teiknimyndaprófanna, til þess að nýta umræðuna sem skapast í kringum það og svo aftur í September – október – vonandi í kjölfar vel heppnaðrar landssöfnunar og frumsýningu stuttmyndanna.

Öll þessi umfjöllun og sýnileiki verður ekki mikils virði ef við bjóðum ekki upp á okkar vönduðu og góðu skyndihjálparnámskeið og það er þar sem deildirnar koma sterkar inn! Án ykkar er ólíklegt að við náum þessum göfugu markmiðum. Samvinna er þess vegna lykilorðið!

Hér er áætlun afmælisársins í grófum dráttum:
10. des . Opnun Neyðarmiðstöðvar. Afmælisárið kynnt opinberlega. Áhersla lögð á nýja vefsíðu „skyndihjalp.is“ og að við munum vera áberandi á árinu með ýmsum hætti.  Ný plaggöt koma út sem leggja áherslu á þá fjóra þætti sem átakið snýr að.

Í byrjun ársins kynnum við til leiks íslenskað app sem hægt er að hala frítt niður í smartsíma.

112 dagur – Skyndihjálparmaður ársins verður að vanda valinn í febrúar.

Lag og myndband – Létt og skemmtilegt, grípandi lag verður samið með mjög húmorískum texta.

Aðalhlutverkið er í höndum fígúru sem mig langar að „liti“ alla herferðina okkar -  Fígúran er bæði kyn og aldurslaus, er afskaplega seinheppin, alltaf að lenda í vandræðum og manni þykir instantly vænt um hana!

Svo eru það ósköp venjulegir menn eða konur, börn eða gamalmenni, sem koma henni til hjálpar og verða þannig hetjurnar okkar.

Myndband við lagið verður kómísk teiknimynd í anda „dumb ways to die“
http://www.youtube.com/watch?v=IJNR2EpS0jw

Í framhaldi af útkomu lags og myndbands smellum við inn skemmtilegu prófi á vefinn okkar. Þetta er teiknimyndapróf – unnið meðfram gerð myndbandsins. Þetta verða fjögur próf, sem kanna kunnáttu í viðbrögðum við bruna, aðskotahluts í hálsi, blæðingar og endurlífgunar. Svo verður náttúrulega hvatning til að sækja námskeið í lok prófsins.