Bréf frá framkvæmdastjóra - Um neyðarmiðstöð Rauða krossins

24.9.2013

Ágætu formenn og framkvæmdastjórar deilda Rauða krossins á Íslandi

Stjórn félagsins hefur nú samþykkt tillögu um Neyðarmiðstöð Rauða krossins. Þetta þýðir að við í Rauða krossinum erum að fara að stórefla neyðarvarnir á landsvísu, þétta viðbragðsnetið, auka samstarf þvert á deildamörk og styrkja Rauða krossinn sem traustan viðbragðsaðila um allt land.

Sá leiði misskilningur hefur komið fram m.a. í yfirgripsmiklum bréfaskriftum á undanförnum dögum, að Landskrifstofa ætli að fara að stjórna sjálfboðaliðum. Það er alrangt og leiðréttist hér með. Sjálfboðaliðar tilheyra deildum. Hvað varðar landsverkefnið Hjálparsímann 1717 og sameiningu hans við aðra starfssemi Neyðarmiðstöðvar, eru áætlanir um að efla hann faglega á landsvísu. Eins og tíðkast hefur í mörg ár innan Rauða krossins t.d. með rekstur Vinjar, þá eru það deildir sem sjá um sjálfboðaliða til verkefnis, en starfsmenn verkefnis eru tengiliðir við deildir. Það er því ekkert sem segir að deildir og landsskrifstofan geti ekki unnið saman að þörfum verkefnum. Vilji er allt sem þarf.

Neyðarvarnir eru einn af hornsteinum Rauða krossins. Með Neyðarmiðstöð er stigið ákveðið skref í átt að meiri fagmennsku, þekkingu, samstarfs og einingar innan Rauða krossins. Sýnileiki er okkur mikilvægur og þetta skref færir okkur umtalsvert áfram í þá átt.

Ég leyfi mér að minna á eininguna í starfi okkar - sameinuð stöndum við, sundruð föllum við.

Með kveðju.

Hermann Ottósson framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi