Kveðja frá nýjum framkvæmdastjóra og upplýsingar um skyndihjálparátak á afmælisári

12.6.2013

Ágæti formaður.

Undirritaður hóf störf fyrir Rauða krossinn í byrjun mánaðarins og óskar eftir góðu og gæfuríku samstarfi við Rauða kross fólk um allt land.   

Eitt af fyrstu verkefnum mínum ásamt hinu frábæra starfsfólki og sjálfboðaliðum félagsins er að undirbúa og hrinda í framkvæmd átaki á sviði skyndihjálpar í tilefni afmælisársins 2014.

Í framkvæmdaáætlun fyrir árið 2013 var gert ráð fyrir að farið yrði í Göngum til góðs söfnun næsta haust og safnað yrði til innanlandsverkefnis. Útlagður kostnaður var áætlaður átta milljónir.

Eftir að niðurstöður netkönnunar, sem send var til allra deilda í byrjun árs, lágu fyrir samþykkti stjórn landsfélagsins að ekki yrði efnt til landssöfnunar í haust heldur yrði því fjármagni sem ætlað var til GTG varið í undirbúning við 90 ára afmæli Rauða krossins á Íslandi á næsta ári.

Afmælisnefnd, sem unnið hefur að undirbúningi í umboði stjórnar frá því um áramót, hefur lagt til að helga afmælisárið skyndihjálp, þar sem um elsta og þekktasta verkefni félagsins sé að ræða.  Herferðin verði kynnt 10. desember, 2013, og standi til 10. desember, 2014.

Unnið hefur verið að framkvæmdaáætlun með skýr markmið og mælanlegan árangur. Kynningarherferðin hafi þann tvíþætta tilgang að fá fleiri á skyndihjálparnámskeið og auka þekkingu með kynningu til almennings og markhópa. Sett verði einföld og mælanleg markmið í þessu skyni.  

Stjórn hefur samþykkt að veita 20 milljónum króna til þessa verkefnis, en fjáröflun verður einnig mikilvægur hluti þess.

Deildir og net sjálfboðaliða Rauða krossins um all land gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki til að afmælisárið geti heppnast sem best og kynningin á Rauða krossinum verði sem veglegust.  Landsskrifstofan mun því leita til deilda um samráð og samvinnu strax í ágúst til að verkefnið heppnist sem best og skili þeim árangri sem vonast er til.

Vinsamlega hafið samband ef frekari upplýsinga er þörf.


Með bestu kveðju

Hermann Ottósson
framkvæmdastjóri
hermann@redcross.is