Skipting tekna, framhaldsaðalfundur o.fl.

13.9.2012

Ágæti formaður

Ég vil minna á nokkur atriði varðandi starfið næstu vikur.

Tillaga að skiptingu tekna
Samkvæmt 12. grein nýrra laga Rauða krossins, sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins þann 19. maí 2012, ber stjórn félagsins að kynna deildum tillögu að skiptingu þeirra tekna Íslandsspila sem fara til deilda einum mánuði fyrir aðalfund. Tillagan verður síðan til afgreiðslu á framhaldsaðalfundi félagsins þann 13. október. Tillaga stjórnar fylgir hér með í viðhengi.

Fulltrúar á framhaldsaðalfundi
Í 7. grein laga Rauða krossins segir að deildir skuli tilkynna landsskrifstofu um nöfn fulltrúa sinna á aðalfundi mánuði fyrir aðalfund. Einungis félagar sem greitt hafa árgjald til deildar sinnar fyrir árslok hafa fullan atkvæðisrétt og kjörgengi. Aðalfundurinn er þó opinn öllum félögum í Rauða krossinum. Þeir sem vilja vera viðstaddir aðalfund en eru ekki fulltrúar deilda sinna þurfa einnig að skrá sig hjá landsskrifstofu með mánaðar fyrirvara. Deildir eru hvattar til að senda inn kjörbréf með nöfnum fulltrúa sinna hið allra fyrsta.

Áætlanir næsta árs
Á haustmánuðum þarf að vinna áætlanir fyrir næsta ár. Samkvæmt 15. gr. laga þurfa deildir og deildaráð að skila framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs auk fjögurra ára verkefnaáætlunar til landsskrifstofu eigi síðar en 10. nóvember. Vakin er athygli á því að samkvæmt 7. málsgr. 12. gr. laga félagsins er deild ekki heimilt að reka sig með halla nema fjárhagsáætlun um slíkt hafi hlotið samþykki stjórnar félagsins.

Umsóknir í Verkefnasjóð
Meginhlutverk Verkefnasjóðs er að veita styrki til stórra verkefna deilda og deildaráða sem aðalfundur Rauða krossins hefur skilgreint sem áhersluverkefni.  Styrkjum er úthlutað einu sinni á ári, í nóvember, vegna verkefna næsta árs. Umsóknir skulu berast landsskrifstofu fyrir 1. október. Reglur Verkefnasjóðs og umsóknareyðublöð eru á sjálfboðaliðavef félagsins.

Tillaga til aðalfundar um tekjuskiptingu

Með bestu kveðjum,
Kristján Sturluson