Göngum til góðs og vetrarstarfið framundan

3.9.2012

Ágæti formaður.

Nú, þegar vetrarstarfið er að hefjast langar mig að nota tækifærið og minna á ýmis atriði og tímasetningar varðandi starfið fram til áramóta.

Göngum til góðs
Stóra verkefnið framundan er Göngum til góðs laugardaginn 6. október. Að þessu sinni verður safnað fyrir verkefni Rauða krossins fyrir börn sem eru í neyð. Reynsla úr fyrri söfnunum segir okkur að lykalatriði til árangurs sé að fá nógu marga sjálfboðaliða til að ganga og safna. Hvatt er til að deildir hafi samband við framhaldsskóla, félög og vinnustaði á sínu starfssvæði til að fá aðkomu sem flestra. Það er mikilvægt að við tökum öll höndum saman og myndum góða og skemmtilega stemningu. Sú nýbreytni verður tekin upp að nú stendur söfnunin yfir bæði föstudag 5. október og laugardag 6. október. Á höfuðborgarsvæðinu verður safnað á föstudeginum á fjölförnum stöðum. Ef deildir telja það vænlegra að ganga í hús á sínu starfssvæði 5. október þá geta þær gert það. Upplýsingar um slíkt þarf að senda til Sólveigar Hildar Björnsdóttur verkefnisstjóra solveig@redcross.is og til hennar þarf einnig að senda upplýsingar um staðsetningu söfnunarstöðva.

Það eru Helga G. Halldórsdóttir fjáröflunarfulltrúi helga@redcross.is og Teitur Þorkelsson kynningarfulltrúi teitur@redcross.is sem veita upplýsingar um söfnunina. Vil ég hvetja ykkur til að hafa samband við þau varðandi spurningar og aðstoð. Gögn er hægt að panta á sjálfboðaliðavefnum  og þarf það að vera búið fyrir 21. september. Gögnin verða send til deilda 26. september. Nánari upplýsingar vegna söfnunarinnar verða sendar í næstu viku.

Umsóknir í Verkefnasjóð
Með nýjum lögum breyttust ákvæði um Verkefnasjóð og samþykkti stjórn nýjar reglur fyrir sjóðinn á fundi sínum 10. júlí. Frestur til að sækja um framlög úr Verkefnasjóði rennur út 1. október (sbr. 3. málsgr. 13. gr. laga Rauða krossins). Umsóknir nú í haust eru vegna verkefna á árinu 2013. Reglur Verkefnasjóðs og umsóknareyðublað er að finna á vefnum. Athygli er vakin á því að skila ber skýrslu til landsskrifstofu um þau verkefni sem fengu úthlutun fyrir árið í ár fyrir 15. október (sbr. 5. málsgr. 13. gr.).

Áætlanir næsta árs
Á haustmánuðum þarf að vinna áætlanir fyrir næsta ár. Deildir og deildaráð þurfa að skila framkvæmda- og fjárhagsáætlun 2013 auk fjögurra ára verkefnaáætlunar til landsskrifstofu eigi síðar en 10. nóvember (sbr. 1. málsgr. 14. grein, laga Rauða krossins). Ég vil minna á að í áætlunum séu verkefni í samræmi við umhverfisstefnu félagsins. Eyðublöð fyrir áætlanir verða tilbúin á vefnum 10. september.

Framhaldsaðalfundur
Framhaldsaðalfundur verður haldinn 13. október á Hótel Natura (áður Hótel Loftleiðir). Fundarboð og dagskrá vegna fundarins voru send út í ábyrgðarbréfi í júlí auk þess sem auglýsing var birt í Fréttablaðinu 12. júlí. Ég vil minna á að samkvæmt nýjum lögum Rauða krossins er frestur til að tilkynna um nöfn fulltrúa á aðalfundi einn mánuður þ.e. fyrir 13. september (sbr. staflið a í 2. málsgr. 7. gr.). Sami frestur er varðandi það að skila inn tillögum sem ætlunin er að leggja fram á fundinum (sbr. 5 málsgr. 7. gr.) og fyrir félaga að tilkynna að þeir vilji vera viðstaddir fundinn (sbr. staflið g í 2. málsgr, 7. gr.). Þessi tvö síðastnefndu atriði eru ný í lögum félagsins.

Formannafundur
Formannafundur verður haldinn laugardaginn 24. nóvember en hann skal nú halda að hausti (sbr. 9. gr. laga Rauða krossins). Nánari upplýsingar vegna formannafundarins verða sendar í byrjun október.

Þjónusta landsskrifstofu við deildir - yfirlit
Yfirlitsskjal sem tilgreinir hvernig svið og starfsmenn landsskrifstofu styðja við starf deilda félagsins er að finna á sjálfboðavef með því að smella hér.

Heimsóknavinanámskeið
Nú er tilbúið nýtt kennsluefni til að nota á námskeiðum fyrir verðandi heimsóknavini. Gert er ráð fyrir að umsjónaraðilar/hópstjórar heimsóknavina hjá deildum geti auðveldlega haldið utan um þessa fræðslu. Meginefni námskeiðsins er fræðslumyndband sem lýsir hlutverki heimsóknavina. Eintaki af myndbandinu verður komið til deilda sem eru virkar í heimsóknaþjónustu en aðrar deildir geta óskað eftir því. Kennsluleiðbeiningar um uppsetningu námskeiðs er að finna í verkfærakistunni á sjálfboðaliðavefnum.

Á næstu vikum munu verkefnisstjórar landsskrifstofu halda fundi víða um land með umsjónarmönnum/hópstjórum heimsóknavina til að kynna þeim kennsluefnið og notkun þess.

Leitarþjónusta
Alþjóðaráð Rauða krossins og landsfélög hreyfingarinnar reka alþjóðlega leitarþjónustu sem nær til 187 landa en markmið hennar og hlutverk er fyrst og fremst að aðstoða fjölskyldumeðlimi, sem hafa orðið viðskila vegna átaka eða hamfara, að komast í samband við hvern annan og aðstoða ættingja að grennslast fyrir um örlög þeirra sem saknað er. Leitarþjónustan er kjarnaverkefni á heimsvísu og hefur svo verið frá árinu 1870.
Á Íslandi hefur umfang leitarþjónustu verið frekar lítið en með tilliti til fjölda útlendinga hér á landi má gera ráð fyrir að fleiri vilji nýta sér hana. Ekki aðeins útlendingar nýta þjónustuna heldur hafa Íslendingar einnig nýtt sér hana, t.d. við að komast í samband við nákomna á hamfara- eða átakasvæðum.

Verið er að útbúa verklagsreglur fyrir deildir sem hafa áhuga á að geta boðið þjónustuna. Einnig hefur verið útbúin auglýsing þar sem leitarþjónustan er auglýst. Verða gögnin send út á allra næstu vikum og þjónustan þá kynnt frekar.

Sjálfboðaliðar - svörun
Að lokum langar mig að koma á framfæri ábendingu um mikilvægi þess að einstaklingum sem bjóða sig fram til sjálfboðinna starfa sé svarað eins fljótt og unnt er. Þetta gildir einnig þó að sú staða sé að ekki sé hægt að verða við ósk viðkomandi.

Með ósk um öflugt Rauða kross starf á komandi vetri,
bestu kveðjur,
Kristján Sturluson