Fundir með deildum um hugmyndir að punktakerfi vegna skiptingu kassatekna

24.5.2012

Ágætu Rauða kross félagar.
Til þessa hafa bréf eins og þetta verið send til formanna deilda og framkvæmdastjóra þar sem þeir eru starfandi. Frá og með þessu bréfi verður tekin upp sú nýbreytni að senda bréfið einnig á varaformenn deilda (ritara þar sem varaformaður hefur ekki verið kjörinn sérstaklega).

Nú er aðalfundurinn að baki þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar um framtíð Rauða krossins á Íslandi með því að samþykkja ný lög fyrir félagið. Ný lög verða komin inn á vefsíðu félagsins fyrir lok vikunnar en þaðan hverfa starfsreglur deilda og reglur um svæðasamstarf. Reglur um URKÍ verða hins vegar óbreyttar þar til í mars á næsta ári. Framhaldsaðalfundur verður haldinn 13. október til að afgreiða ýmis mál í kjölfar lagabreytinganna.

Eins og kom fram á aðalfundinum eru framundan fundir þar sem ræða á hugmyndir að punktakerfi vegna skiptinga á kassatekjum meðal deilda. Alls er áætlað að halda átta fundi, sjá hér á eftir.

30. maí kl. 18:30 í Borgarnesi (Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi, Bjarnarbraut 8.)
4. júní kl. 18:30 á Sauðárkróki (húsnæði Skagafjarðardeildar, Aðalgötu 10)
5. júní kl. 18:30 á Húsavík (húsnæði Húsavíkurdeildar, Nausti á hafnarsvæðinu)
6. júní kl. 18:30 á Egilsstöðum (húsnæði Héraðs- og Borgarfjarðardeildar, Miðási 1-5 )
7. júní kl. 18:30 í Breiðdalsvík (húsnæði Slysavarnafélagsins, Nesbúð, Selnesi)
7. júní kl 18:30 á Hvolsvelli (Félagsheimilið Hvoll, Austurvegi 8 )
9. júní kl. 10:00 á Ísafirði (húsnæði Ísafjarðardeildar, Suðurgötu 12)
11. júní kl. 18:00 í Garðabæ (Garðalundur félagsmiðstöð (við Garðaskóla), Vífilsstaðavegi)

Vonandi ná sem flestar deildir að senda fulltrúa til að taka þátt í þessum fundum. Nú er bara að finna hvaða fundur hentar best m.t.t. tíma og staðsetningar. Gert er ráð fyrir um tveggja tíma fundi og er léttur málsverður innifalinn. Til þess að geta áætlað veitingar er mikilvægt að þátttakendur skrái sig með a.m.k. tveggja daga fyrirvara í síma 570 4032 (Sólborg) eða með tölvupósti á solborg@redcross.is.

Á fundi sínum þann 27. apríl síðastliðinn samþykkti stjórn leiðbeiningar um framkvæmd stefnu og reglur um einkennisfatnað Rauða krossins. Hvort tveggja hafði þetta verið til umsagnar og kynningar hjá deildum. Þessar leiðbeiningar og reglur hafa verið settar inn á sjálfboðaliðavefinn. Með þessu bréfi fylgir skjal sem er viðauki við leiðbeiningar um framkvæmd stefnu og er ætlað sem hjálpartæki við verkefnaval og endurmat verkefna. Skjalið er jafnframt að finna á sjálfboðaliðavefnum á slóðinni: http://rki.is/Apps/WebObjects/RedCross32.woa/wa/dp?id=2144 Þetta skjal er byggt á samsvarandi leiðbeiningum sem unnar voru hjá Rauða krossinum í Reykjavík.

Sakavottorð
Samkvæmt Barnaverndarreglum Rauða kross Íslands ber deildum félagsins að sækja um upplýsingar úr sakaskrá vegna allra einstaklinga sem óska eftir að taka þátt í hvers kyns sjálfboðaverkefnum á vegum deilda sem fela í sér starf með börnum og ungmennum. Reykjavíkurdeild býðst til að annast umsóknir um slíkar upplýsingar fyrir allar deildir. Hér fyrir neðan er slóð á sjálfboðaliðavefinn þar sem umsóknareyðublaðið er að finna. Deild sendir útfyllt eyðublað til Reykjavíkurdeildar sem síðan tilkynnir deildinni um útkomu umsóknar þegar hún liggur fyrir. Tilkynningin er send á það netfang deildar sem kemur fram á umsókninni. Þess ber að geta að ef sjálfboðaliði er undir 18 ára þarf samþykki foreldris/forráðamanns fyrir umsókninni. Umsóknareyðublað: http://rki.is/Apps/WebObjects/RedCross32.woa/wa/dp?id=2109

Fatasöfnun í tengslum við kvennahlaupið.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum verður fatasöfnun í tengslum við kvennahlaupið 16. júní í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Í kynningu á söfnuninni hefur verið talað um nærföt en að sjálfsögðu er verið að horfa til söfnunar á öllum fatnaði.

Námskeið fyrir leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi
Rauði krossinn heldur núna á næstunni námskeið fyrir leiðbeinendur í barna- og ungmennastarfi í samstarfi við Bandalag íslenskra skáta. Námskeiðið er haldið 4.-6. júní kl. 17-20 í Hraunbæ 123. Þátttökugjald er 1.500 kr. Námskeiðið nýtist best deildum sem skipuleggja starf með börnum og ungmennum yfir sumartímann. Næsta vetur er aftur á móti fyrirhuguð fræðsla á vegum landsskrifstofunnar fyrir leiðbeinendur í ungmennastarfi yfir vetrartímann.

Skráningar á ofangreint námskeið sendist fyrir 30. maí til Ingibjargar Eggertsdóttur á netfangið imma@redcross.is

Göngum til góðs.
Minnt er á söfnunina Göngum til góðs sem verður 6. október.

Umdæmissamningar almannavarna
Um þessar mundir er að hefjast vinna við gerð umdæmissamninga almannavarna í öllum lögregluumdæmum. Samningarnir eiga að skilgreina hlutverk deilda Rauða krossins og björgunarsveita í umdæmum, í samræmi við nýsamþykktan landssamning um skipan hjálparliðs almannavarna. Ritnefndir hafa verið myndaðar með fulltrúum lögreglustjóra, almannavarnanefnda, björgunarsveita og deilda Rauða krossins. Ritnefndirnar stefna að því að skila drögum í ágúst sem lagðar verða fyrir stjórnir deilda til samþykktar. Vonast er til að hægt verði að undirrita samningana í október. Jón Brynjar Birgisson neyðarvarnafulltrúi, netfang jon@redcross.is og fulltrúar deilda í ritnefndum veita nánari upplýsingar.

Með bestu kveðju,

Kristján Sturluson
a