Hækkun á greiðslum til leiðbeinenda í skyndihjálp, nýtt námsefni ofl

1.9.2011

Kæri formaður

Verð á námskeiðum og greiðslur til leiðbeinenda
Út er komin ný viðmiðunarverðskrá fyrir skyndihjálparnámskeið og greiðslur til leiðbeinenda. Laun leiðbeinenda á kennslustund hækka um tæplega 12% eða úr 4.600 kr. upp í 5.100 kr. Á sjálfboðaliðavef Rauða kross Íslands er hægt að nálgast nánari upplýsingar um verð á námskeiðum undir valmöguleikanum Vinnutól (efst á síðunni). Þar undir má finna kafla sem heitir Skyndihjálp með ýmsum undirköflunum t.d verð á námskeiðum. Á sama stað á vefnum má finna ný matsblöð fyrir námskeiðin. Eitt slíkt fylgir þessum pósti í viðhengi.

Nýtt námsefni
Bókin „Skyndihjálp og endurlífgun, þú getur hjálpað þegar á reynir“ er til endurskoðunar og verið er að uppfæra hana í samræmi við nýjar leiðbeiningar í skyndihjálp og endurlífgun. Útgáfudagur bókarinnar liggur ekki fyrir en, hún verður vonandi tilbúin fyrir áramót. Nýjar kennsluglærur fyrir leiðbeinendur verða gefnar út samtímis.

Endurmenntunarnámskeið fyrir leiðbeinendur standa yfir
Skyndihjálparráð gerir kröfu um að allir leiðbeinendur sæki endurmenntunarnámskeið árið 2011 til að viðhalda réttindum sínum. Fyrsta námskeiðið var haldið þann 27. ágúst og er það næsta á dagskrá 24. september. Hafið í huga að leiðbeinendur sem ekki sækja endurmenntun missa réttindi til að kenna skyndihjálp í lok árs 2011.

Skyndihjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða
Ég vil hvetja deildir til að bjóða öllum sjálfboðaliðum að sækja skyndihjálparnámskeið, sérstaklega þeim sem ekki hafa tekið námskeið áður og eru virkir í starfinu. Rauða krossinum er mjög mikilvægt að sjálfboðaliðar geti verið til fyrirmyndar og kunni að bregðast rétt við í neyðartilfellum.

Ég óska ykkur velfarnaðar í Rauða kross starfi á vetri komanda.

Matsblað

Verð námskeiða

Greiðslur til leiðbeinenda

Með bestu kveðju,
Gunnhildur Sveinsdóttir
verkefnisstjóri skyndihjálpar
gunnhildur@redcross.is