Undirbúningur Rauðakrossvikunnar og upplýsingar um sjálfboðaliða

27.6.2011

Ágætu Rauða kross félagar.

Eins og gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætlun Rauða krossins og ég gerði grein fyrir á aðalfundinum 21. maí, verður Rauðakrossvikan haldin í haust. Upphaflega var gert ráð fyrir að kynningarvikan yrði 10.-15. október en komið hefur í ljós að sá tími hentar ekki. Upplýsingar um nákvæma dagsetningu verða sendar um leið og svör berast frá innanríkisráðuneytinu.

Þema Rauðakrossvikunnar verður fjölbreytni verkefna Rauða krossins og framlag sjálfboðaliða félagsins til samfélagsins. Horft verður til árs sjálfboðaliðans (2011 er bæði evrópskt og alþjóðlegt ár sjálfboðaliðans) og tölulegar upplýsingar frá Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans notaðar að einhverju leyti til samanburðar. Eins og Anna Stefánsdóttir formaður sagði frá á aðalfundinum þá starfar um einn af hverjum 2.000 jarðarbúum sem sjálfboðaliði Rauða kross hreyfingarinnar en hér á Íslandi lætur nærri að einn af hverjum 100 íbúum landsins vinni sjálfboðin störf innan Rauða krossins.

Í kynningum í Rauðakrossvikunni verður áhersla lögð á mikilvægi sjálfboðaliðans í verkefnunum. Því er, eins og ég ræddi líka á aðalfundinum, nauðsynlegt að deildir taki saman upplýsingar um þann mannauð sem Rauði kross Íslands býr yfir. Þörf er á tölulegum upplýsingum um verkefni, fjölda sjálfboðaliða og þær vinnustundir sem þeir leggja fram auk fjölda skjólstæðinga í hverju verkefni.

Í lok Rauðakrossvikunnar gefst deildum sem það kjósa tækifæri til fjáröflunar til Rauða kross verkefna sem þær eru að vinna að á sínu starfssvæði. Landsskrifstofa mun senda út hugmyndir og ráðleggingar varðandi fjáröflunarleiðir í lok ágúst. T.d. er hægt að ganga í hús með bauka líkt og í Göngum til góðs, vera með söfnunarbauka og kynningar á verkefnum sem safnað er fyrir á fjölförnum stöðum/verslunarkjörnum, eða boða til einhvers viðburðar sem gestir borga þá inn á s.s. tónleika eða eitthvað slíkt.

Útbreiðslusvið ráðgerir gerð myndbands þar sem verkefni Rauða krossins og tölulegar upplýsingar eru settar fram á grafískan og skemmtilegan hátt. Myndbandið getur nýst bæði í auglýsingarherferð fyrir Rauðakrossvikuna og eins í kynningar á Rauða krossinum á öðrum vettvangi. Einnig er ætlunin að gefa út nýjan bækling um verkefni Rauða krossins.

Gert er ráð fyrir því að auglýsingaherferð vegna Rauðakrossvikunnar verði unnin í september og samhliða þurfa deildir að ákveða hvaða áherslur þær vilja setja í kynningum og fjáröflun í tengslum við vikuna. Auglýsingar í landsmiðlum verða á landsvísu. Útbreiðslusvið mun jafnframt aðstoða deildir við gerð auglýsinga til að setja í fjölmiðla í héraði en deildir þurfa að annast birtingar þeirra. Myndband og bæklingur verður unnið í sumar.

Sólveig Ólafsdóttir sviðsstjóri útbreiðslusviðs heldur utan um kynningarefni og tengsl við fjölmiðla ásamt söfnun viðeigandi upplýsinga: solveig.olafsdottir@redcross.is, s. 893 9912 og 570 4014. Ottó Tynes verkefnisstjóri fjáröflunar sér um markaðssetningu, gerð myndbands og veitir ráðgjöf varðandi fjáröflun og auglýsingar: otto.tynes@redcross.is, s. 824 3342 og 570 4018. Ingibjörg Eggertsdóttir vefstjóri sér um upplýsingar á vef o.fl.: imma@redcross.is, s. 570 4017.

Bestu kveðju og hafið það gott í sumar,

Kristján Sturluson