Stjórnarfundur 28.08.2009

31.8.2009

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                 FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 28. ágúst kl. 16:15 í Efstaleiti 9.  Þetta var 3. fundur stjórnar og sá 926. frá upphafi.
   
Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Gísli Pálsson, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Pálín Dögg Helgadóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Stefán Yngvason. Forföll boðuðu Esther Brune, Einar Sigurðsson og Þórdís Magnúsdóttir. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri. 

1.    Stefna 2020. Lagt fram minnisblað um málið sem framkvæmdastjóri fór yfir. Tekið hefur verið tillit til athugasemda Rauða kross Íslands um orðalag markmiða í nýrri stefnu hreyfingarinnar sem samþykkt verður á alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í nóvember.

2.    Lög um Rauða kross Íslands. Lagt fram minnisblað með drögum að lögum um Rauða kross Íslands. Á alþjóðaráðstefnu Rauða kross hreyfingarinnar árið 2003 lögðu ríkisstjórn og Rauði kross Íslands fram áheit um að sett yrðu lög um félagið og merkið. Landsnefnd um mannúðarrétt mun fá  drögin til  umfjöllunar.

3.    Rauðakrossvikan. Lagt fram minnisblað og framkvæmdastjóri fór yfir undirbúning vikunnar sem verður 12.-17. október. Undirbúningur er að hefjast hjá deildum og allt stefnir í veglega Rauðakrossviku þar sem áherslan verður lögð á viðbrögð við áföllum.

4.    Ráðgjafarhópur innflytjenda. Hópurinn er skipaður til eins árs í senn. Samþykkt að fela formanni að ganga frá skipan hópsins.

Gísli og Jón Þorsteinn yfirgáfu fund kl. 17:55.

5.    Kosningar IFRC. Kynnt nöfn frambjóðenda í kosningum á aðalfundi hreyfingarinnar í Kenya í nóvember.

6.    Tillaga norska Rauða krossins fyrir alþjóðafundina. Norski Rauði krossinn hefur óskað eftir því að Rauði kross Íslands verði meðflytjandi að tillögu á fundi fulltrúaráðs Rauða krossins um hömlur á notkun margvíslegra vopna. Rauði krossinn hefur áður flutt svipaðar tillögur í samvinnu við NRK.  Stjórn samþykkti málaleitan norska Rauða krossins um að vera meðflytjandi tillögunnar.

7.    Viðbrögð við inflúensu. Lagt fram minnisblað. Unnið er samkvæmt landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu. Landsskrifstofa vinnur að áætlun um órofinn rekstur svo hægt sé að halda úti allri mikilvægustu starfsemi ef mikið verði um veikindi. Einnig hefur verið útbúinn gátlisti fyrir deildir varðandi sams konar áætlun.

8.    Önnur mál.
i.    Gísli spurði hvort félagið gæti lagt meiri áherslu á annars vegar viðbrögð við afleiðingum kreppunnar og hins vegar umhverfismál. Formaður greindi frá að málefnin yrðu tekin upp á næsta vinnufundi stjórnar sem verður 17. október.
ii.    Gunnar spurði um samning Rauða krossins og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og lögreglu á sama svæði.  Framkvæmdastjóri varð til svara og sagði frá samkomulagi milli ofangreindra aðila um neyðarkort sem afhent eru á vettvangi slysa. Kortunum hefur verið dreift um land allt.
iii.    Svæðisfundir.  Dagsetningar svæðisfunda verða sendar stjórnarfólki í pósti.
iv.    Framkvæmdastjóri sagði frá skýrslu sem félagið hefur látið gera um mansal á Íslandi og fyrirhugaða ráðstefnu um sama efni 2. september.
v.    Framkvæmdastjóri sagði frá breytingum í starfsmannamálum.
vi.    Framkvæmdastjóri greindi frá fundi í heilbrigðisráðuneytinu þar sem sagt var frá sparnaði í þjónustusamningum ráðuneytisins.
vii.    Formaður bað stjórnarfólk að taka frá dag fyrir vinnufund stjórnar 17. október og greindi frá að næsti stjórnarfundur yrði í húsnæði Íslandsspila.
viii.    Formaður ræddi atvik þar sem sjúkrabílar komu við sögu vegna ofsaaksturs. Framkvæmdastjóri ræddi í framhaldinu við framkvæmdastjóra slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:05
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir.