Stjórnarfundur 27. mars 2009

30.3.2009

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                            FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 27. mars 2009 kl. 16:15 í Efstaleiti 9. Þetta var 11. fundur stjórnar og sá 921. frá upphafi.
   
Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Gunnar Frímannsson, Karen Erla Erlingsdóttir, Pálín Helgadóttir, Sigríður Magnúsdóttir og Þórdís Magnúsdóttir.  Einar Sigurðsson, Esther Brune og Garðar H. Guðjónsson boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri. 

1.    Umsóknir um fjármagn vegna innflytjendaverkefna. Lagt fram minnisblað frá ráðgjafarhópi um innflytjendamál. Þrjár deildir sóttu um fjárveitingu úr innflytjendasjóði í febrúar. Ráðgjafarhópur mælir einungis með umsókn Hafnarfjarðardeildar vegna verkefnis í þágu einstaklinga sem sækja um hæli á Íslandi sem flóttamenn. Stjórn samþykkti að auk Hafnarfjarðardeildar verði Garðabæjardeild styrkt um sem nemur hálfu stöðugildi og námskeiðskostnaði vegna verkefnisins Félagsvinur – Mentor er málið. Framkvæmdastjóra falið að ræða við Garðabæjardeild um framtíð verkefnisins.
2.    Aðalfundur 2009.  Lagt fram minnisblað um undirbúning aðalfundar. Samþykkt  að yfirskrift aðalfundarins verði: “Veröldin okkar. Þú átt leik.”
3.    Lagabreytingar. Lögð fram tillaga að breytingu á 7. gr. laga Rauða kross Íslands um kjör varamanna. Samþykkt að leggja tillöguna ásamt greinargerð fyrir stjórnarfund í apríl.
Lögð fram tillaga frá stjórn URKÍ að breytingu á 17. gr. laga um hækkun aldurs félaga með þátttökurétti í ungmennahreyfingunni. Samþykkt að leggja tillöguna fyrir aðalfund í maí.
4.    Viðurkenningar á aðalfundi. Lagt fram minnisblað um tillögur að viðurkenningum til sjálfboðaliða á aðalfundi 2009. Tillaga Viðurkenningarnefndar um viðurkenningu til þriggja sjálfboðaliða samþykkt. Lagt fram minnisblað um viðurkenningar til deilda.  Stjórn samþykkti að veita Akranesdeild, fyrir verkefnið „Hollráð til hamingju”, og Árnesinga- og Hveragerðisdeild, vegna skólaverkefnis um viðbrögð í kjölfar áfalla, viðurkenningu á aðalfundi.
5.    Fjárhagsstaða deilda.  Lagt fram minnisblað um fjárhagsstöðu deilda þar sem fram kemur þróun tekna hjá deildum árin 2000-2007. Gjaldkeri mun kynna niðurstöður á aðalfundi. 
6.    Aðalfundir deilda. Lagt fram minnisblað um aðalfundi deilda. Allar deildir hafa haldið aðalfundi og sex kusu sér nýjan formann.  Af nýju stjórnarfólki eru alls tíu ungmenni.
7.    Önnur mál.
i.    Bréf frá svæðisráði höfuðborgarsvæðisins. Svæðisráð beinir þeim tilmælum til stjórnar að landsskrifstofa skoði þann möguleika að bjóða upp á starfsnám fyrir einstaklinga á aldrinum 18-25 ára. Málinu vísað til framkvæmdastjóra.
ii.    Rauðakrosshúsið.  Lagt fram minnisblað um starfsemi Rauðakrosshússins fyrstu þrjár vikurnar.  Starfsemin í húsinu eykst jafnt og þétt og sífellt fleiri bjóða fram aðstoð sína við námskeiðahald og fræðslu. Stjórn fagnaði því góða starfi sem fram fer í Rauðakrosshúsinu og fól framkvæmdastjóra að vinna áfram að málinu.
iii.    Varsla fjármuna.  Í framhaldi af því að SPRON, viðskiptabanki Rauða krossins, var lagður niður lagði framkvæmdastjóri fram minnisblað um vörslu fjármuna félagsins sem er hjá Kaupþingi.
iv.    Boðsbréf frá Íslandsspilum.  Íslandsspil býður eigendum sínum til kynningarfundar föstudaginn 17. apríl n.k. Undir þessum lið var einnig dreift nýjum samningi milli aðildarfélaga Íslandsspila.
v.    Landssöfnunin „Hundraðkall á haus“. Samtals söfnuðust um 15 milljónir.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:00
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir