Stjórnarfundur 27. febrúar 2009

2.3.2009

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                                    FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 27. febrúar 2009 kl. 16:15 í húsnæði Reykjavíkurdeildar að Laugavegi 120.  Þetta var 10. fundur stjórnar og sá 920. frá upphafi.
   
Mætt: Gunnar Frímannsson, Einar Sigurðsson, Esther Brune, Karen Erla Erlingsdóttir, Pálín Dögg Helgadóttir og Sigríður Magnúsdóttir.  Anna Stefánsdóttir,  Anh-Dao Tran, Þórdís Magnúsdóttir og Garðar H. Guðjónsson boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri. 
Varaformaður setti fund í forföllum formanns.

1.    Heimsókn til Hjálparsímans 1717.  Fjóla Einarsdóttir verkefnisstjóri kynnti starfsemi Hjálparsímans.

2.    Íslandsspil, tekjuskipting.  Lagt fram minnisblað um tekjuskiptingu í samræmi við ákvörðun stjórnarfundar 30. janúar.  Niðurstaða viðræðna við Landsbjörgu og SÁÁ var sú að tekjuskipting 2008 verði sú sama og var 2007, þ.e. aukning um 5% milli ára og síðan verði hlutur Rauða krossins 59,5% árin 2009 og 2010.  Stjórn fagnar niðurstöðunni og veitir framkvæmdastjóra heimild til að ganga frá samningi miðað við þessa niðurstöðu.

3.    Rauðakrosshúsið. Lagt fram minnisblað um Rauðakrosshúsið og framkvæmdastjóri og Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs fóru yfir undirbúning opnunar hússins sem væntanlega tekur til starfa í næstu viku í Borgartúni.  Stjórn fagnar því hve fljótt og vel hefur gengið að koma verkefninu af stað og finna því ódýrt og hentugt húsnæði á góðum stað.


4.    Tillögur starfshóps um umhverfismál.  Lagt fram minnisblað og Karen fór yfir vinnu starfshóps.  Til stendur að halda ráðstefnu um umhverfis- og loftslagsmál þann 18. maí.  Framkvæmdastjóri greindi frá að forseti Íslands hefði samþykkt að opna ráðstefnuna og að leitað hefði verið til yfirmanns Red Cross Climate Center í Hollandi og framkvæmdastjóra kenýska Rauða krossins um að ávarpa fundinn.  Stjórn samþykkti að leggja tillögu að umhverfisstefnu fyrir Rauða kross Íslands fyrir næsta aðalfund félagsins. 

5.    Dagskrá aðalfundar 2009.  Framkvæmdastjóri fór yfir tillögu að dagskrá aðalfundar í maí.  Stjórn samþykkti dagskrárdrögin. 
Kynnt var tillaga Garðars H. Guðjónssonar að breytingu á lögum Rauða kross Íslands sem lýtur að kosningu varamanna í stjórn félagsins.  Framkvæmdaráði falið að vinna áfram að málinu, byggja á tillögunni og umræðum á fundinum og leggja fyrir stjórnarfund í mars.

6.    Formannskjör hjá Alþjóðasambandinu. Lagt fram minnisblað um formannskjör í Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans og framkvæmdastjóri kynnti frambjóðendur.  Stjórn samþykkir að styðja formann japanska Rauða krossins í kjöri til formanns.

7.    Önnur mál.
i.    Aðalfundir deilda.  Tólf aðalfundum er lokið. Unnt er að sjá hvar og hvenær aðalfundir deilda eru haldnir inni á heimasíðu félagsins.
ii.    Fundur 17.04. hjá Íslandsspilum.  Stjórnum eigenda Íslandsspila er boðið að koma og kynna sér starfsemi Íslandsspila þann 17. apríl.
iii.    Stýrihópur um velferðarvakt.  Framkvæmdastjóri hefur tekið sæti í stýrihópnum og stýrir vinnuhópi um áhrif efnahagsþrenginganna á ungt fólk.  Sömuleiðis mun fulltrúi félagsins taka sæti í vinnuhópi sem snýr að atvinnulausum.
iv.    Fundargerð aukafundar framkvæmdaráðs 5. febrúar sl.  Stjórn staðfestir niðurstöður framkvæmdaráðs. 
   
Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:20
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir