Stjórnarfundur 31.01.2014

4.2.2014

STJÓRN RAUÐA KROSSINS Á ÍSLANDI                            
FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða krossins á Íslandi mánudaginn 31. janúar 2014 kl. 16:15 í Efstaleiti 9. Þetta var 15. fundur núverandi stjórnar og sá 979. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Einar Sigurðsson, Eyrún Sigurðardóttir, Helgi Ívarsson, Jón Þ. Sigurðsson, Jónas Sigurðsson, Ragna Árnadóttir, Sólveig Reynisdóttir og Stefán Yngvason.
Forföll boðuðu: Gísli Friðriksson, Guðný Bergvinsdóttir og Halldór U. Snjólaugsson. Einnig sat fundinn Hermann Ottósson framkvæmdastjóri.

Formaður breytti út af röð mála og tók fyrst fyrir 5. mál.

1.    Fundargerð framkvæmdaráðs 140114. Fundargerðin samþykkt.

2.    Aðalfundur 2014
a.    Boðun og dagskrá. Boðað verður til aðalfundar, með dagskrá, með þriggja mánaða fyrirvara eins og lög félagsins kveða á um.
b.    Staða verkefna nefndar um ágreiningsmál. Formaður greindi frá stöðu mála og því að sendinefnd á vegum Evrópuskrifstofu Rauða krossins sé væntanleg til landsins.
c.    Tillaga til lagabreytinga er varða tekjuskiptingu. Lögð fram tillaga að breyttri tekjuskiptingu.  Samþykkt að senda tillöguna til deilda til umsagnar.
d.    Kjörnefnd. Greint var frá því að kjörnefnd hefur tekið til starfa.

3.    Lögbundin skoðun landsskrifstofu á bókhaldi deilda. Minnisblað lagt fram. Skoðað hefur verið bókhald 10 deilda, eins og kveður á um í 15. gr. laga félagsins. Bent var á nokkur atriði sem betur mega fara og verða viðkomandi deildum send bréf þar að lútandi.

4.    Fagráð á aðgerðasviðum. Minnisblað  lagt fram. Formanni og framkvæmdastjóra falið að skipa fagráð á Hjálpar- og mannúðarstarfssviði og Samskiptasviði sem verði stjórn til ráðuneytis við að móta stefnu og áherslur viðkomandi sviða. Fram kom að mikilvægt væri að setja fagráðum starfsreglur.

5.    Ýmis mál:  Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra.
a.    Starfsmanna- og launastefna. Framkvæmdastjóri greindi frá að fyrirtækið Attentus vinni starfsmanna- og launastefnu fyrir félagið, með þátttöku starfsfólks, sem lögð verði fyrir stjórn fyrir aðalfund í maí.  
b.    Nýir starfsmenn hjá Rauða krossinum.  Þrír nýir starfsmenn hafa hafið störf, þau Hannes J. Eðvarðsson sálfræðingur, Guðjón Svansson verkefnisstjóri og Hildur B. Hilmarsdóttir, sviðsstjóri.  Rætt um ráðningar án auglýsinga. Þrír starfsmenn hafa hætt störfum, þau Jóhann Thoroddsen sálfræðingur, Gestur Hrólfsson og Aðalheiður Birgisdóttir. Þórir Guðmundsson er í sex mánaða leyfi.
c.    Fatasöfnun 2013.Lagt fram yfirlit yfir þróun útflutnings Fatasöfnunar á árinu 2013. Umtalsverð aukning hefur orðið á þessu verkefni félagsins.
d.    Sjálfboðaliðar – könnun.  Framkvæmdastjóri greindi frá því að könnunarfyrirtæki verði fengið til að kortleggja hvaða verkefni sjálfboðaliðar sinni helst og hvaða verkefnum þeir hafi áhuga á að tengjast betur. Niðurstaða könnunarinnar verði lögð fyrir aðalfund félagsins í vor.
e.    Fræðsla í Húsi Rauða krossins. Fyrirhugað er að vera með reglulega fræðslustarfsemi í Húsi Rauða krossins.  
f.    Safnanir og framlög seinni 6 mánuðir 2013. Lagt fram yfirlit yfir safnanir og framlög á síðari hluta ársins 2013. Fram kemur aukinn áhugi hjá fyrirtækjum og einstaklingum við að styðja félagið.

6.    Samningur við innanríkisráðuneyti um réttargæslu hælisleitenda. Framkvæmdastjóri greindi frá stöðu viðræðna við ráðuneytið. Stjórn samþykkti að fela framkvæmdaráði að fjalla um málið fyrir sína hönd. Stjórn verður kölluð saman til aukafundar ef nauðsyn krefur.

7.    Önnur mál.
i.    Fastanefnd. Formaður lagði fram hugmynd að skipan laganefndar sem fjallaði um ágreiningsmál varðandi lög félagsins. Samþykkt að stjórn leggi fram tillögu fyrir aðalfund í vor.
ii.    Erindi frá Rauða krossinum við Eyjafjörð. Erindinu var vísað frá vegna ófullnægjandi upplýsinga.
iii.    Aðalfundir deilda. Formaður hvatti stjórnarfólk til að sækja aðalfundi deilda á sínum svæðum.
iv.    Skyndihjálparapp Rauða krossins hefur verið sótt af yfir 11000 manns.
v.    Aðalheiði Birgisdóttur, sem verið hefur stuðningur við stjórn síðustu tæp níu ár, þakkað sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt.
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir
Fundi slitið kl. 18:50