Stjórnarfundur 03.06.2011

8.6.2011

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                    FUNDARGERÐ
Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 3. júní 2011 kl. 16:15 í Efstaleiti 9. Þetta var 2. fundur stjórnar og sá 949. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Ágústa Ósk Aronsdóttir, Einar Sigurðsson, Eyrún Sigurðardóttir Gunnar Frímannsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Sigríður Magnúsdóttir og Sólveig Reynisdóttir.  Anh-Dao Tran, Esther Brune, Halldór U. Snjólaugsson, Ragna Árnadóttir og Stefán Yngvason boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

Fundargerð síðasta stjórnarfundar samþykkt.

1.    Skipan vinnuhóps um fjáröflun. Lagt fram minnisblað. Í framhaldi af samþykkt nýrrar stefnu félagsins var samþykkt að setja á fót vinnuhóp um fjáröflun. Helstu viðfangsefni hópsins verða að fara yfir núverandi fjáraflanir félagsins í heild og koma fram með tillögur um nýjar leiðir, gera tillögu að stefnu Rauða kross Íslands í fjáröflun, móta samræmt verklag um fjáröflun félagsins og fjalla um aukna virkni sjálfboðaliða við fjáröflun.  Samþykkt var að gjaldkeri félagsins, Einar Sigurðsson, stýri vinnuhópnum og auk hans sitji í hópnum: Jón Þorsteinn Sigurðsson stjórnarmaður, Ragna Árnadóttir fyrsti varamaður í stjórn, Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar, Hermann Guðmundsson stjórnarmaður í Reykjavíkurdeild, Sveinn Þorsteinsson formaður Víkurdeildar og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri. Auk þessara þrír fulltrúar úr atvinnulífinu sem formaður hópsins mun velja ásamt formanni. Sólveig Ólafsdóttir sviðsstjóri mun starfa með vinnuhópnum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til stjórnar Rauða krossins fyrir 15. janúar 2012.

2.    Tímasetningar funda ágúst 2011 til júní 2012. Lagt fram minnisblað með dagsetningum funda næsta starfsárs. Samþykkt.

3.    Stefna um alþjóðastarf. Lagt fram stefnuskjal í alþjóðastarfi í samræmi við nýsamþykkta stefnu félagsins. Samþykkt.

4.    Aðalfundur 2011. Lagt fram minnisblað. Almenn ánægja var meðal aðalfundarfulltrúa með aðalfundinn sem haldinn var í Stapa á Reykjanesi þann 21. maí.

5.    Endurskoðun laga félagsins. Lagt fram minnisblað. Ýmislegt kallar á endurskoðun laga Rauða kross Íslands og bera þar ný stefna og minna fjármagn hæst. Einnig hefur Alþjóðasambandið (ICRC) gert athugasemdir við tiltekin atriði í lögum félagsins sem taka þarf tillit til. Samþykkt að skipa vinnuhóp sem endurskoði lögin. Formaður mun leggja fram tillögu um skipan hópsins og erindisbréf hans á stjórnarfundi í ágúst.

6.    Sjúkraflutningar. Lagt fram minnisblað. Borist hefur ný kröfulýsing frá velferðarráðuneytinu um útvegun og rekstur sjúkrabifreiða og búnað í þá. Framkvæmdastjóri hefur gert athugasemdir við kröfulýsinguna. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.

Einar yfirgaf fund kl. 17:15
7.    Grímsvatnagosið. Lagt fram minnisblað og framkvæmdastjóri fór yfir aðgerðir Rauða krossins í tengslum við gosið. Erindi barst frá fyrrum stjórnarmönnum félagsins þar sem viðruð var hugmynd að því að Rauði krossinn léti útbúa pakka með rykgrímum og hlífðargleraugum ásamt leiðbeiningum til að dreifa í hús á gossvæðum. Bent var á að það er hlutverk almannavarna að útvega almenningi grímur. Rauði krossinn gæti þó útbúið leiðbeiningar til fólks og hvatt til þess að grímur væru til á heimilum. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu.

8.    Samstarf Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Lagt fram minnisblað. Ýmsir snertifletir eru á störfum Rauða krossins og Landsbjargar. Félögin hafa átt með sér samstarf í gegnum tíðina og til eru samningar um samstarf félaganna frá árum áður. Samþykkt var að óska eftir viðræðum við SL sem  þriggja manna nefnd annist. Nefndin verður skipuð Gunnari Frímannssyni, sem verður formaður, Eyrúnu Sigurðardóttur og framkvæmdastjóra.

9.    Önnur mál.


Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 17:50
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir