Stjórnarfundur 28.01.2011

31.1.2011

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                 FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 28. janúar 2011 kl. 16:15 í Efstaleiti 9. Þetta var 8. fundur stjórnar og sá 943. frá upphafi.
Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Einar Sigurðsson, Esther Brune, Eyrún Sigurðardóttir, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson og Sólveig Reynisdóttir.
Fjarvist boðuðu: Ágústa Ósk Aronsdóttir, Gísli Pálsson, Sigríður Magnúsdóttir og Stefán Yngvason. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri

1.    Skipan kjörnefndar. Samkvæmt lögum félagsins þarf að skipa kjörnefnd a.m.k. þremur mánuðum fyrir aðalfund. Samþykkt að Pálín Dögg Helgadóttir verði formaður kjörnefndar og með henni í nefndinni verði Katrín Matthíasdóttir formaður Garðabæjardeildar og Árni Þorgilsson formaður Rangárvallasýsludeildar.

2.    Dagskrá formannafundar. Drög að dagskrá formannafundar kynnt. Dagskrá fundarins samþykkt.

3.    Tímabundin framlenging samnings um sjúkraflutninga. Lagt fram minnisblað. Sjúkratryggingar Íslands hafa óskað eftir því að núverandi samningur um sjúkraflutninga verði framlengdur um þrjá mánuði þar sem velferðarráðuneytið er ekki búið með sína undirbúningsvinnu. Stjórn samþykkir að framlengja gildandi samning um þrjá mánuði en áréttar að sá dráttur sem orðið hefur á endurnýjun samnings sé óásættanlegur og nauðsynlegt sé að ljúka gerð samningsins innan þriggja mánaða.

4.    Styrkur frá Styrktarsjóði SPRON til Reykjavíkurdeildar. Styrktarsjóður SPRON gaf Rauða krossinum 20 milljónir með þeim skilmálum að stjórn félagsins úthlutaði þeim til verkefna hjá Reykjavíkurdeild. Formaður og framkvæmdastjóri funduðu með formanni og framkvæmdastjóra Reykjavíkurdeildar. Stjórn samþykkir að styrkurinn renni til Rauðakrosshússins. Ef  því verkefni verður hætt mun styrkurinn renna til annarra verkefna sem deildin hefur ráðist í vegna efnahagshrunsins.

5.    Erindi frá Hafnarfjarðardeild um seinkun aðalfundar. Lagt fram erindi frá deildinni. Ákvæði fyrstu málsgreinar 15. greinar laga félagsins eru skýr um hvenær aðalfundir deilda skuli haldnir og stjórn ekki heimilt að víkja frá því ákvæði. Stjórn Hafnarfjarðardeildar er bent á þann möguleika að halda stuttan aðalfund fyrir 15. mars og fresta honum síðan til 30. mars þegar honum yrði fram haldið sem hátíðarfundi.

6.    Samningur um hjálparlið almannavarna. Þar sem samningur er ekki tilbúinn er málið tekið af dagskrá.

7.    Vinnuhópur um einstaklingsaðstoð. Samþykkt að skipa framkvæmdastjóra Reykjavíkurdeildar í vinnuhópinn en fulltrúar frá öðrum deildum verði kallaðir til eftir þörfum.

8.    Endurskoðun reikninga deilda. Lagt fram minnisblað. Reikningar 10 deilda eru árlega endurskoðaðir af landsskrifstofu. Niðurstaða nýjustu endurskoðunar liggur fyrir. Ástand í reikningshaldi félagsins er almennt mjög gott en mikilvægt er að tekin verði upp nákvæmari vinnubrögð við bókun reikninga hjá tilteknum deildum. Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að leita leiða til að lækka kostnað við endurskoðun reikninga félagsins.

9.    Fjölmiðlaumfjöllun árið 2010.  Fjallað var um Rauða krossinn 959 sinnum á árinu 2010, þar af voru tombólubörn 101, alþjóðastarf 307 og innanlandsstarf 551 sinni. Héraðsmiðlar eru hér ekki meðtaldir.

10.    Önnur mál.
i.    Formaður kynnti vinnu við gerð nýrrar stefnu.
ii.    Einstaklingsaðstoð. Þrjátíu deildir sóttu um að fá framlög vegna einstaklingsaðstoðar fyrir jól. Um sautján milljónir söfnuðust meðal fyrirtækja, félaga og einstaklinga en alls var úthlutað um 30 milljónum.
iii.    Aðalfundir deilda. Lagt fram yfirlit yfir aðalfundi deilda næstu mánuði. Stjórnarfólk hvatt til að sækja fundina.
iv.    Vin. Framkvæmdastjóri og framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar áttu fund með borgarstjóra annars vegar og velferðarsviði Reykjavíkurborgar hins vegar í sl. viku þar sem kynntar voru áætlanir félagsins um að hætta rekstri Vinjar í núverandi mynd.
v.    Haítí. Fyrirspurn um hversu mikið hefur safnast vegna hjálparstarfs á Haítí. Fram kom að um 80 milljónir hafa safnast.
vi.    Næsti fundur stjórnar verður haldinn í húsnæði Hveragerðisdeildar.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir.
Fundi slitið kl. 18:40