Stjórnarfundur 17. 12. 2010

20.12.2010

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                         FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 17. desember 2010 kl. 16:15 í Efstaleiti 9. Þetta var 7. fundur stjórnar og sá 942. frá upphafi.
Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Ágústa Ósk Aronsdóttir, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Sigríður Magnúsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Stefán Yngvason.  Esther Brune,  Einar Sigurðsson, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Ólafía Eyrún Sigurðardóttir  og Gísli Pálsson boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri

1.    Framkvæmdaáætlun 2011. Framkvæmdaáætlun ársins 2011 samþykkt.
2.    Fjárhagsáætlun 2011. Fjárhagsáætlunin  samþykkt.
3.    Áætlun um stöðu fjármála.  Lagt fram minnisblað. Stjórn samþykkti eftirfarandi tillögu:  “Stjórn Rauða kross Íslands ákveður að á árinu 2014 verði rekstur félagsins í heild kominn í jafnvægi og útgjöld ársins ekki hærri en tekjur. Stjórnin mun leggja tillögu að stefnu félagsins fyrir aðalfund sem er í samræmi við þetta markmið. Jafnframt felur stjórnin framkvæmdastjóra að gera áætlun um hvernig jafnvægi verði náð í rekstri sem heyrir undir landsskrifstofu og breytingar sem því fylgja á skipulagi og verkefnum.”
4.    Einstaklingsaðstoð.  Stjórn leggur áherslu á að allt félagið standi að verkefnum með samræmdum hætti.  Í ljósi þess er ákveðið að endurskoða núverandi fyrirkomulag einstaklingsaðstoðar félagsins. Lagt fram minnisblað. Stjórn samþykkti eftirfarandi tillögu:   “Stjórn Rauða kross Íslands skipar fimm manna starfshóp sem skal hafa það hlutverk að endurskoða og gera tillögu til stjórnar um skipulag á einstaklingsaðstoð á vegum félagsins. Hópinn skipa Sólveig Reynisdóttir stjórnarmaður (formaður hópsins), Gunnar Frímannsson stjórnarmaður, Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs landsskrifstofu, fulltrúi tilnefndur af framkvæmdastjórum deilda á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi frá Suðurnesjadeild.
Stjórn felur framkvæmdaráði að setja starfshópnum erindisbréf þar sem fram kemur að vinna skuli tillögur um reglur um eftirfarandi atriði:
1.    Hvert á umfang einstaklingsaðstoðar á vegum Rauða krossins að vera (t.d. allt árið eða einugis fyrir jólin?).
2.    Hvernig staðið sé að einstaklingsaðstoð.
3.    Aðgengi notenda að einstaklingsaðstoð, kynning og gagnsæi.
4.    Í hverju á aðstoðin að felast?
5.    Samræming einstaklingsaðstoðar þannig að tryggt sé að Rauði krossinn komi fram sem eitt félag.
6.    Hámarksupphæðir og viðmiðanir.
7.    Samstarf við aðra aðila sem veita einstaklingsaðstoð.
8.    Fjáraflanir vegna einstaklingsaðstoðar.
9.    Starfshópurinn skal taka með í vinnu sína hvernig einstaklingsaðstoð er unnin alþjóðlega. Í því sambandi skal hópurinn fá til liðs við sig sendifulltrúa sem hafa reynslu af slíkum verkefnum í hjálparstarfi erlendis.
Auk þessa skal unnin skýrsla sem gefi yfirlit um einstaklingsaðstoð á vegum félagsins.
Starfshópurinn kallar síðan til samráðs aðra aðila eftir þörfum.
Starfshópurinn skal skila niðurstöðum til stjórnar Rauða kross Íslands fyrir fund hennar 29. apríl.”

5.    Fatasöfnun.  Stjórn leggur áherslu á að allt félagið standi að verkefnum með samræmdum hætti.  Í ljósi þess er ákveðið að endurskoða núverandi fyrirkomulag við fatasöfnun félagsins. Lagt fram minnisblað og stjórn samþykkti eftirfarandi tillögu:  “Stjórn Rauða kross Íslands skipar átta manna starfshóp sem skal hafa það hlutverk að endurskoða og gera tillögu til stjórnar um skipulag á fatasöfnunarverkefnum félagsins. Hópinn skipa Halldór Snjólaugsson stjórnarmaður (formaður hópsins), Stefán Yngvason stjórnarmaður, Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs landsskrifstofu, Herdís Sigurjónsdóttir fulltrúi í stjórn Fatasöfnunar á höfuðborgarsvæðinu (og formaður stjórnar Sorpu), fulltrúi tilnefndur af framkvæmdastjórum deilda á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúi frá Suðurnesjadeild og fulltrúi frá Akureyrardeild.
Stjórn felur framkvæmdaráði að setja starfshópnum erindisbréf þar sem fram kemur að vinna skuli tillögur að reglum  um eftirfarandi atriði:
1.    Fyrirkomulag á fatasöfnun, landsverkefni eða annað?
2.    Sölu fatnaðar, verðlagningu, framsetningu, kynningarmál o.s.frv.
3.    Hvernig tekjum af fatasöfnun verði varið
4.    Fataúthlutanir
Starfshópurinn kallar síðan til samráðs aðra aðila eftir þörfum.
Starfshópurinn skal skila niðurstöðum til stjórnar Rauða kross Íslands fyrir fund hennar 25. mars.”
6.    Norrænn fundur.  Formaður greindi frá fundi norrænna formanna og framkvæmdastjóra nýverið og  sagði frá sameiginlegri yfirlýsingu norrænu landsfélaganna að þau muni beita sér í sameiginlegu átaki fyrir því að kjarnavopnum verði útrýmt í heiminum í samræmi við mannúðarhlutverk Rauða krossins og grundvallarmarkmið alþjóðlegra mannúðarlaga. Einnig skora norrænu félögin á ríkisstjórnir Norðurlandanna að nýta sér þetta tækifæri til að fylgja eftir af auknum krafti og frumkvæði samningaviðræðum um gerð lagalega skuldbindandi alþjóðasamnings um bann við kjarnavopnum og útrýmingu þeirra. Formaður og framkvæmdastjóri afhentu forsætisráðherra yfirlýsinguna mánudaginn 13. desember sl. og hefur yfirlýsingin verið lögð fyrir ríkisstjórn Íslands. Framkvæmdastjóri greindi frá miklum samdrætti hjá norrænu félögunum sem og fundi sem félögin ráðgera að halda á Íslandi næsta ár þar sem ræða á aukna samvinnu á alþjóða vettvangi.
7.    Önnur mál.
i.    Íslandsspil. Dreift var bæklingi um samfélagslega ábyrgð Íslandsspila.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 18:00.
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir