Stjórnarfundur 04.06.2010

7.6.2010

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                         FUNDARGERÐ
Fundur í stjórn Rauða kross Íslands miðvikudaginn 4. júní 2010 í Efstaleiti 9. Þetta var 2. fundur stjórnar og sá 937. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Ágústa Ósk Aronsdóttir, Einar Sigurðsson, Esther Brune, Gísli Pálsson, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Ólafía Eyrún Sigurðardóttir, Sigríður Magnúsdóttir og Stefán Yngvason.  Anh-Dao Tran, Jón Þorsteinn Sigurðsson og Sólveig Reynisdóttir boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

Fundurinn hófst á því að nýir stjórnarmenn, Ólafía Eyrún Sigurðardóttir og Ágústa Ósk Aronsdóttir undirrituðu yfirlýsingu í samræmi við 7. grein laga félagsins.

1.    Fundargerð stjórnarfundar 15. maí. Fundargerðin samþykkt.

2.    Endurskoðuð fjárhagsáætlun. Framkvæmdastjóri fór yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir að halli á rekstri ársins verði 54 milljónir sem verður að teljast viðunandi miðað við árferði. Mikilvægt er að í haust verði mótuð áætlun til lengri tíma um hvernig skuli farið með sjóði og hvert lágmark þeirra skuli vera. Áætlunin samþykkt.

Einar yfirgaf fund kl. 17:00

3.    Fundaáætlun. Fundaáætlun næsta stjórnarárs samþykkt.

4.    Barnaverndarreglur. Lögð fram ný og breytt drög að barnaverndarreglum fyrir félagið. Barnaverndarreglur Rauða kross Íslands samþykktar. Reglurnar verða endurskoðaðar í árslok 2011.

5.    Nýliðinn aðalfundur. Lagt fram minnisblað um mat aðalfundarfulltrúa á aðalfundinum. Fulltrúar virðast almennt hafa verið ánægðir með hvernig fundurinn tókst til.

6.    Aðalfundur 2011, staðsetning. Lagt fram minnisblað með upplýsingum um hugsanlega staðsetningu aðalfundar næsta árs, en bæði Hafnarfjarðardeild og Suðurnesjadeild hafa boðist til að halda fundinn. Stjórn samþykkti að næsti aðalfundur skuli haldinn í Stapa í Reykjanesbæ, m.a. í ljósi þess að mun lengra er liðið frá því að aðalfundur var haldinn á Suðurnesjum.

7.    Fjölsmiðja á Suðurnesjum. Lagt fram minnisblað frá formanni Suðurnesjadeildar um stöðu mála. Eftirfarandi tillaga var samþykkt: ”Stjórn Rauða kross Íslands samþykkir að úthluta 15 milljónum úr varasjóði félagsins til stofnframlags Fjölsmiðju á Suðurnesjum. Breytingar verða gerðar á rekstraráætlun í samræmi við þessa ákvörðun.” Framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.

8.    Virknisetur sem taka við af Rauðakrosshúsinu. Framkvæmdastjóri fór yfir drög að verklagsreglum um virknisetur og voru verklagsreglurnar samþykktar.  Eftirfarandi tillaga var samþykkt: ”Stjórn Rauða kross Íslands samþykkir að úthluta 30 milljónum króna úr varasjóði vegna virknisetra, 10 milljónum á árinu 2010 og 20 milljónum á árinu 2011. Breytingar verða gerðar á rekstraráætlun í samræmi við þessa ákvörðun.”

9.    Önnur mál.
i.    60 ára afmæli Reykjavíkurdeildar verður haldið þann 19. júní næstkomandi og býður deildin stjórnarfólki og fjölskyldum þeirra til afmælisfagnaðar.
ii.    Framkvæmdastjóri greindi frá yfirlýsingu Alþjóðasambandsins þar sem mannskæð árás Ísraels á skip með hjálpargögn til Gaza er hörmuð.
iii.    Framkvæmdastjóri sagði frá að til stendur að gera úttekt á vinadeildasamstarfi félagsins.
iv.    Rætt um sýnileika verkefna. Mikilvægt er að nafn og merki Rauða krossins sé ávallt tengt verkefnum.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 18:50
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir