Stjórnarfundur febrúar 2010

26.2.2010

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                         

FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 26. febrúar 2010 kl. 15:30. Fundurinn hófst í Efstaleiti 9 en var síðan fram haldið í húsnæði Akranesdeildar að Þjóðbraut 11.  Þetta var 9. fundur stjórnar og sá 932. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Pálín Dögg Helgadóttir, Sólveig Reynisdóttir, Stefán Yngvason og Gísli Pálsson. Esther Brune, Einar Sigurðsson og Sigríður Magnúsdóttir boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

1.    Undirritun yfirlýsingar um samstarf við Rauða krossinn. Utanríkisráðherra kom á fund og skrifaði ásamt formanni undir yfirlýsingu um samstarf utanríkisráðuneytisins við Rauða krossinn í samræmi við áheit frá Alþjóðaráðstefnu Rauða krossins árið 2007.

Fundi frestað og haldið til Akraness.

2.    Dagskrá formannafundar. Farið yfir dagskrá formannafundar og hún samþykkt.

3.    Breytingar á lögum Reykjavíkurdeildar. Lagt fram minnisblað.  Lagt er til að fækka um einn í stjórn deildarinnar (úr átta í sjö) á þann hátt að gjaldkeri Kvennadeildar sitji ekki í stjórninni eftir aðalfund deildarinnar 2010. Þá er lagt til að varamönnum verði fækkað um tvo og skoðunarmönnum úr tveimur í einn. Samþykkt að staðfesta þessar breytingar.

4.    Dagskrá aðalfundar. Lögð fram drög að dagskrá aðalfundarins og þau rædd.

5.    Málefnaþing. Lagt fram minnisblað. Samkvæmt lögum félagsins ber að halda málaefnaþing annað hvert ár í tengslum við aðalfund félagsins. Að þessu sinni er lagt til að þingið verði föstudaginn 14. maí (daginn fyrir aðalfund) kl. 14-17 og fjallað verði um niðurstöður skýrslunnar “Hvar þrengir að?” og hugsanlega einnig flutt erindi um fátækt þar sem árið 2010 er Evrópskt ár gegn frátækt.

6.    Starf Rauða kross Íslands á Haítí. Lagt fram minnisblað um hjálparstarf félagsins á Haítí. Framkvæmdastjóri fór yfir helstu aðgerðir í landinu síðustu vikur en gert er ráð fyrir að uppbygging landsins muni taka mörg ár. Rauði kross Íslands hefur sent alls 12 sendifulltrúa til Haítí og ennþá eru 10 þeirra að störfum. Verið er að skoða aðkomu Íslands að færanlegri sjúkrastöð sem sett yrði upp við upphaf regntímabilsins en búist er við að það hefjist á næstu vikum og standi fram á haust.

7.    Önnur mál.
i.    Spurt út í Ungvirkni. Framkvæmdastjóri var til svara og sagði fyrstu verkefnisstjóra verkefnisins Ungt fólk til athafna hefja störf næstkomandi mánudag. Stefnt er að því að virkja allt að 180 manns í verkefninu.
ii.    Spurt út í skerðingu á svæðissjóðum. Svæðissjóðir hafa fengið tekjur sínar af afgangi tekna deilda. Þær tekjur sem ekki hafa verið nýttar til svæðisverkefna hafa runnið í Verkefnissjóð. Staðan er sú núna að mjög lágar upphæðir eru í svæðissjóðum og því studdi framkvæmdaráð þá ákvörðun að skerða ekki tekjur svæðissjóða í ár.
iii.    Spurt út í niðurlagningu skyndihjálparhóps í Reykjavík. Formaður og framkvæmdastjóri svöruðu.
iv.    Móttaka flóttamanna. Formaður og framkvæmdastjóri Akranesdeildar kynntu verkefni um móttöku flóttamanna og vinnu með innflytjendum. Einnig flutti kona úr hópi palestínskra flóttamanna ávarp.

Fundi slitið kl. 20:00
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir