Stjórnarfundur 29. janúar 2010

1.2.2010

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                         FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 29. janúar kl. 16:15 í Efstaleiti 9.  Þetta var 8. fundur stjórnar og sá 931. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Anh-Dao Tran, Esther Brune, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Pálín Dögg Helgadóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Stefán Yngvason. Einar Sigurðsson og Gísli Pálsson boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

1.    Skipan kjörnefndar. Lagt er til að Karen Erla Erlingsdóttir verði formaður kjörnefndar og með henni í nefndinni verði Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar og Katrín Matthíasdóttir formaður Garðabæjardeildar. Samþykkt.

2.    Dagskrá formannafundar. Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað um dagskrá formannafundar þar sem lagt er til að umræðuefni fundarins verði þrjú: umræða um áhrif kreppunnar á heilsufar, sjúkraflutningar og mótun stefnu félagsins til 2020. Dagskráin samþykkt og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.

3.    Endurskoðun stefnu félagsins, skipan starfshóps. Lagt fram minnisblað og samþykkt að skipaður verði starfshópur  til að vinna tillögur að nýrri stefnu fyrir félagið með hliðsjón af nýsamþykktri stefnu Alþjóðasambandsins til ársins 2020.  Auk formanns mun Jón Þorsteinn Sigurðsson eiga sæti í hópnum frá stjórn félagsins. Svæðisráðin verða beðin að skipa einn fulltrúa frá hverju svæði og URKÍ einn. Framkvæmdastjóri mun sitja í hópnum og formaður velur ráðgjafa/sjálfboðaliða utan félags. Ef enginn innflytjandi verður í hópnum þá verður Ráðgjafahópur innflytjenda beðinn að skipa einn til viðbótar.  Málinu frestað til næsta fundar.

4.    Barnaverndarreglur Rauða krossins. Lögð fram fyrstu drög að barnaverndarreglum fyrir félagið.  Stjórnarfólk lýsti ánægju sinni með að settar verði reglur um barnavernd hjá félaginu. Drögin verða send framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur til yfirlestrar og ráðgjafar. Í framhaldinu verða drögin send deildum sem hafa ungmennastarf með höndum og ungmennahreyfingunni til umsagnar.

5.    Endurskoðun reikninga deilda. Lagt fram minnisblað. Einnig viðraðar hugmyndir um hvort rétt væri að breyta fyrirkomulagi á þá lund að einn endurskoðandi sæi um að endurskoða reikninga allra deilda félagsins í ljósi þess að bókhald allra deilda er nú allt fært í sama kerfið.  Málið verður tekið til umræðu síðar.

6.    Sjúkraflutningar. Sjúkratryggingar Íslands hafa sent tillögu að samningi sem gerir ráð fyrir 6,7% niðurskurði á framlagi ríkisins til sjúkraflutninga. Sjúkratryggingum hefur verið svarað á þann veg að ekki sé hægt að ræða niðurskurð án þess að farið sé yfir hvaða þjónustu eigi að veita.  Sömuleiðis að eðlilegra sé að hefja hið fyrsta viðræður um áframhaldandi samning og taka á þessum málum þar.

7.    Önnur mál.

i.    Haítí.  Framkvæmdastjóri fór yfir aðgerðir Rauða kross Íslands eftir hörmungarnar á Haítí.  Tveir sendifulltrúar eru komnir á staðinn og fjársöfnun hefur gengið mjög vel auk þess sem félagið sendi rúmlega tvö tonn af hjálpargögnum sem sérstaklega var beðið um.  Í skoðun er hjá ríkisstjórn og flóttamannanefnd að taka við hópi fólks frá Haítí.  

ii.    Spurt um vöntun á söfnunarbauk Rauða krossins á Keflavíkurflugvelli.  Málið verður skoðað.

iii.    Heimsóknir stjórnarfólks til deilda. Formaður hvetur stjórnarfólk til að heimsækja aðalfundi deilda en dagsetningar allra fundannna liggja frammi á heimasíðu félagsins.

iv.    Stjórnarfundir á vettvangi verkefna.  Formaður viðraði hugmynd um að stjórn félagsins fundaði með stjórn deildar á árinu. Framkvæmdastjóra falið að skoða málið.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið kl. 19:00

Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir