Fundur 18. desember 2009

21.12.2009

STJÓRN RAUÐA KROSS ÍSLANDS                         FUNDARGERÐ

Fundur í stjórn Rauða kross Íslands föstudaginn 18. desember kl. 16:15 í Efstaleiti 9.  Þetta var 7. fundur stjórnar og sá 930. frá upphafi.

Mætt: Anna Stefánsdóttir, Einar Sigurðsson, Esther Brune, Gunnar Frímannsson, Halldór U. Snjólaugsson, Jón Þorsteinn Sigurðsson, Pálín Dögg Helgadóttir, Sigríður Magnúsdóttir og Stefán Yngvason. Forföll boðuðu: Anh-Dao Tran,     Sólveig Reynisdóttir og Gísli Pálsson. Einnig sat fundinn Kristján Sturluson framkvæmdastjóri.

1.    Framkvæmdaáætlun 2010. Framkvæmdaáætlun ársins 2010 samþykkt.
2.    Fjárhagsáætlun 2010. Fjárhagsáætlunin samþykkt.
3.    Formaður URKÍ segir frá starfinu. Formaður bauð Pálínu Björk Matthíasdóttur formann Ungmennahreyfingar Rauða krossins velkomna til fundar. Minnisblað lagt fram og Pálína kynnti starfsemi URKÍ og svaraði spurningum stjórnarfólks.
4.    Nýtt samkomulag um hjálparlið almannavarna. Komið er að endurnýjun samkomulags milli Rauða kross Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ný lög um almannavarnir voru samþykkt á síðasta ári og til stendur að ganga frá nýju samkomulagi í vor þar sem verkefni Rauða krossins í almannavarnakerfinu, fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf, verður skilgreint í samræmi við breytingar sem orðið hafa. Framkvæmdastjóri mun vinna að samkomulagi við almannavarnir með fyrirvara um afgreiðslu stjórnar.
5.    Heimild til viðskipta við MP banka. Stjórn samþykkti heimild til framkvæmdastjóra og sviðsstjóra fjármálasviðs um að færa hluta af bankaviðskiptum félagsins til MP banka.
6.    Önnur mál.
i.    Jólasöfnun og jólaaðstoð. Minnisblað lagt fram. Deildir eru nú að vinna að aðstoð á sínum starfssvæðum. Í einhverjum tilvikum eru deildir að sinna þessu einar en í fleiri tilvikum er um að ræða samstarf við aðra aðila. Söfnun vegna þessarar aðstoðar hefur skilað um kr. 26 millj. og vörum að verðmæti um kr. 2 millj. Um helmingur framlaga hefur verið merktur sameiginlegri úthlutun og hafa þá farið inn á sameiginlegan reikning. Vöruúttektir hafa sömuleiðis farið í sameiginlega úthlutun hjálparsamtaka í Reykjavík.
ii.    Aðgerðir til að virkja ungt atvinnulaust fólk (18 til 24 ára).  Vinnumálastofnun hefur rætt við Rauða krossinn um þátttöku í sérstökum aðgerðum vegna ungs atvinnulauss fólks sem félags- og tryggingamálaráðherra kynnti í gær. Möguleikarnir hafa verið kannaðir óformlega án skuldbindinga. Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað um málið. Stjórn telur eðlilegt að Rauði krossinn komi að þessu verkefni.
iii.    Fjölmiðlaumfjöllun varðandi Reykjavíkurdeild (RRKÍ) og Alþjóðahús (Ahús). Umræða í tilefni fjölmiðlaumræðu um störf framkvæmdastjóra RRKÍ fyrir Ahús. Margvísleg sjónarmið komu fram og var ákveðið að óska eftir umsögn frá siðanefnd félagsins með vísan til þess hvort endurskoða þurfi siðareglur félagsins með tilliti til hæfis og hagsmunaárekstra.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 18:45.
Fundargerð ritaði Aðalheiður Birgisdóttir.