Fundargerð 3. febrúar 2018

Fundurinn er númer 17 hjá núverandi stjórn og númer 1017 frá upphafi.

3.2.2018

Fundargerð stjórnar Rauða krossins á Íslandi

 

Viðstaddir: Sveinn Kristinsson, Jónas Sigurðsson, Helgi Ívarsson, Sigrún Árnadóttir, Sveinn Þorsteinsson, Ívar Kristinsson, Hrund Snorradóttir, Ragna Árnadóttir, Margrét Vagnsdóttir, Halldór Valdimarsson og Kristín Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri. Þóra Nikulásdóttir var í síma. Forföll boðuðu: Ragnar Þorvarðarson og Oddrún Kristjánsdóttir.

Starfsmenn á fundinum voru Guðný Björnsdóttir og Jón Brynjar Birgisson sem rituðu jafnframt fundargerð.

Formaður setti fund kl. 09.16

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð samþykkt.

2. Málefni deilda

Eyjafjarðardeild

Ívar og Hrund kynntu skýrslu nefndar stjórnar um fjármál Eyjafjarðardeildar sem lá fyrir fundinum. Skýrslan var rædd. Nefndin gerir ýmsar athugasemdir við fjárfestingu Eyjafjarðardeildar í deildarhúsnæði og þeim kostnaðarsömu endurbótum sem hafa farið fram á því. Formaður þakkaði nefndinni fyrir krefjandi en vel heppnaða vinnu. Stjórn deildarinnar hefur hafið umbætur, fundargerðir hafa verið bættar og fjárhags- og launabókhald hefur verið flutt á landsskrifstofu.

Mosfellsbæjardeild

Í framhaldi af fyrri umræðu um málefni Mosfellsbæjar. Fyrri hluti aðalfundar var haldinn 18. janúar síðastliðinn. Þar var kosin ný stjórn. Seinni hluti aðalfundarins verður haldinn 15. febrúar. Ekki er gert ráð fyrir frekari afskiptum af málefnum deildarinnar.

Kvennadeildin í Reykjavík

Formaður Reykjavíkurdeildar, framkvæmdastjóri Rauða krossins, fjármálastjóri Rauða krossins og endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton funduðu með stjórn Kvennadeildar á dögunum. Þar var kynnt sú krafa að bókhald deildarinnar færi til landsskrifstofu. Niðurstaðan var sú að bókhald Kvennadeildar komi yfir til landsskrifstofu á miðju ári.

 Aðalfundir deilda

Dagsetningar aðalfunda skulu sendir á stjórn. Ein sameining er í burðarliðnum, Héraðs- og Borgarfjarðardeild og Vopnafjarðardeild.

3. Sjúkrabílar

Formaður og framkvæmdastjóri funduðu með heilbrigðisráðherra snemma í mánuðinum. Heilbrigðisráðherra lýsti þar skoðun sinni að sem mestur hluti heilbrigðisþjónustu yrði rekinn af ríkinu, þ.m.t. sjúkrabílar. Ráðherra lýsti þó áhuga sínum á að gera samning á grundvelli þess samnings sem lá fyrir fyrir tveimur árum, til þriggja ára. Fyrr í þessari viku voru félaginu kynnt samningsdrög til þriggja ára frá ráðuneytinu, sem gera jafnframt ráð fyrir að farið verði í lokauppgjör milli aðila. Kristín hefur sent drögin til lögmannsstofunnar LOGOS til yfirferðar. Rauði krossinn leggur alla áherslu á að fenginn verði óháður aðili til að taka út uppgjörið ef til lokauppgjörs kemur.

4. Styrkir frá utanríkisráðuneytinu

Rauði krossinn fékk úthlutað 75% af því fjármagni sem ráðuneytið hafði ákveðið að verja til mannúðarverkefna, samtals 55 mkr.

5. Skýrsla framkvæmdastjóra

Samningur við dómsmálaráðuneytið um þjónustu við hælisleitendur er enn í samningsferli. Rauði krossinn er eini aðilinn sem sendi inn tilboð í útboð ráðuneytisins. Vonandi sér fyrir endann á þeirri vinnu sem fyrst.

Í vikunni var gengið til samninga við tvo nýja starfsmenn. Björg Kjartansdóttir var ráðin sem sviðsstjóri fjáröflunar. Thelma Jónsdóttir var ráðin rekstrarstjóri fataverkefnis.

Tveir starfsmenn eru að yfirgefa félagið; Þórir Guðmundsson forstöðumaður Reykjavíkurdeildar og Gunnhildur Sveinsdóttir verkefnastjóri skyndihjálpar.

Landsskrifstofa vinnur að gerð ferla vegna kynferðislegs áreitis og kynferðisbrotamála. Fimm manna teymi starfsmanna leiðir vinnuna. Þrír starfsmenn munu verða varanlegir tengiliðir; framkvæmdastjóri, sálfræðingur félagsins og trúnaðarmaður. Formenn á Norðurlöndum ræddu á símafundi fyrr í mánuðinum að vinna þessum málum brautargengi hjá IFRC og landsfélögum á heimsvísu.

Framkvæmdastjóri er hluti af vinnuhópi sem er ætlað að efla stöðu kvenna innan forystusveitar alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Launasamtölum er að mestu lokið. Kristín lýsti yfir áhyggjum af því að ákveðnir starfsmenn deilda sitji ekki við sama borð vegna þess að þeir eru undirmenn sjálfboðaliða og því ekki hluti af þessu formlega ferli (launasamtöl, starfsmannasamtöl ofl.).

6. Aðalfundur Rauða krossins

Formaður leggur til aðalfundur verði færður til 26. maí, enda lendir sú dagsetning sem fyrr hefur verið ákveðin á hvítasunnuhelgi. Tillagan var samþykkt.

7. Lög félagsins

Stjórn samþykkti tillögur laganefndar um ný lög Rauða krossins á Íslandi. Lögin fara í kjölfarið í þýðingu og verða send sameiginlegri laganefnd Alþjóðaráðsins og Alþjóðasambandsins til yfirlestrar og samþykktar. Lagabreytingatillögur verða svo sendar deildum í síðasta lagi 26. febrúar næstkomandi.

8.      Önnur mál

Engin önnur mál.

Fundi var slitið kl. 11.34.