Fundargerð 20. maí 2016

Fundargerð 20. maí 2016

20.5.2016

 Viðstaddir: Sveinn Kristinsson, Helgi Ívarsson, Gísli Friðriksson, Oddrún Kristjánsdóttir, Ívar Kristinsson, Jónas Sigurðsson og Halldór Valdimarsson. Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri, og Linda Ósk Sigurðardóttir, verkefnisstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Forföll boðuðu: Hrund Snorradóttir, Ragna Árnadóttir, Margrét Vagnsdóttir

 

Gengið til dagskrár kl. 13.10

 

Formaður bauð stjórnarmenn velkomna.

 

1.      Fundargerð framkvæmdaráðs frá 17. maí

Samþykkt.

 

 

2.      Fundargerð stjórnarfundar frá 28. apríl og framhaldsfundar 4. maí

Samþykkt.

 

 

3.      Aðalfundur 2016

·         Framkvæmdastjóri fór stuttlega yfir undirbúning fundar, allt gengið vel eftir. Alls eru 111 sjálfboðaliðar skráðir á fundinn.

·         Skýrsla stjórnar, formaður mun fara yfir sögulega upprifjun og verkefni félagsins í samantekt sinni.

·         Framkvæmdastjóri kynnir stefnu félagsins sem eru tillögur stjórnar.

 

Arna Harðardóttir, fjármálastjóri mætir á fundinn kl. 13.20

 

4.      Þriggja mánaða uppgjör

Arna Harðardóttir kynnti fjárhagsstöðu félagsins. Fyrsti ársfjórðungur ársins sýnir neikvæða stöðu um 12,5 milljónir sem væntanlega mun jafnast út á árinu. Kassatekjur eru um 9% hærri en áætlað var í upphafi árs.

 

 

5.      Tillögur, 1000-asti stjórnarfundur og drög að ályktun aðalfundar

Fjórar tillögur liggja fyrir og voru þær allar samþykktar.

1.      Neyðarvarnir. Stjórn telur mikilvægt að halda áfram þróun neyðarvarna bæði er varðar uppbyggingu viðbúnaðar, þróun þekkingar og tengslanets.

2.      Flóttafólk og hælisleitendur. Markmið stjórnar er að vekja athygli á málefnum flóttafólks og hælisleitenda og vinna markvisst að málsvarastarfi í þeirra þágu. Jafnframt leggur stjórn ríka áherslu á að félagið sé leiðandi í að opna fyrir og skapa virkniúrræði og sjálfboðin störf fyrir flóttafólk innan félagsins

3.      Húsnæðismál. Stjórn samþykkir að gert verði mat á húsnæðisþörf félagsins fyrir næstu 20 ár. Í mati þessu komi fram hverjar breytingar kunni að verða á  þörfum félagsins, tengslum þess við verkefni og þróun þeirra, hvernig tryggður verði nægjanlegur sveigjanleiki varðandi gerð og stærð húsnæðis. Þá skal einnig fjallað um mögulega samnýtingu landsfélagsins og deilda á höfuðborgarsvæðinu. Formanni og framkvæmdastjóra falið umboð til að hefja þá vinnu.

 

4.       Fatamál. Stjórn samþykkir að unnið skulið að þeim tillögum sem fram hafa komið við  endurskoðun fataverkefnis, þar sem fjallað er um húsnæði, flokkun og sölu.

 

 

Formaður las upp drög að ályktun aðalfundar Rauða krossins á Íslandi gegn fordómum og mismunun. Samþykkt að leggja ályktun fram.

 

Ályktun aðalfundar Rauða krossins á Íslandi gegn fordómum og mismunun:

Byggjum betra samfélag, nýtum kosti fjölbreytileikans og tökumst á við áskoranirnar sem honum fylgja.

 

Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi ályktar um mikilvægi þess að sporna gegn fordómum og mismunun í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að nýta kosti fjölbreytileikans og á sama tíma takast á við áskoranir sem honum fylgja.

 

Rauði krossinn hvetur stjórnvöld og landsmenn alla til að stuðla að friðsamlegri og vinsamlegri sambúð allra íbúa landsins sem grundvallast á sterkri lýðræðishefð, samfélagsþátttöku og mannréttindum.

 

Það er samfélaginu til hagsbóta að allir búi við jöfn tækifæri til áhrifa, samræðu og þátttöku. Þannig njótum við öll þess félagsauðs sem verður til í fjölbreyttu samfélagi.

 

Á sama tíma leggjum við, sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins, áherslu á að:

 

■       allir geti tekið þátt í starfi Rauða krossins á jafnréttisgrundvelli.

■       bera jafna virðingu fyrir öllum óháð uppruna eða lífsskoðunum.

■       vinna í þágu berskjaldaðra með grundvallarhugsjónir okkar um mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni að leiðarljósi.

■       berjast gegn fordómum, mismunun og hatursorðræðu sem beinist að fólki vegna þjóðernis, menningar, trúar eða skoðana.

 

1.      Önnur mál

 

a)      Lagt fram til upplýsinga bréf frá Nefndarsviði skrifstofu Alþingis varðandi umsögn Íslandsspila sf. til allsherjar-og menntamálanefndar um frumvarp til laga um happadrætti og talnagetraunir.

 

 

Fundi slitið kl. 14.05