Fundargerð 11. maí 2018

Fundurinn er númer 20 hjá núverandi stjórn og númer 1020 frá upphafi.

11.5.2018

Fundargerð stjórnar Rauða krossins á Íslandi

Viðstaddir: Sveinn Kristinsson, Ragna Árnadóttir, Sveinn Þorsteinsson, Sigrún Árnadóttir, Ívar Kristinsson, Halldór Valdimarsson, Helgi Ívarsson, Jónas Sigurðsson og Margrét Vagnsdóttir. Hrund Snorradóttir var í síma. Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri og Dögg Guðmundsdóttir sem ritaði fundargerð. Forföll boðuðu: Oddrún Kristjánsdóttir, Þóra B. Nikulásdóttir og Ragnar Þorvarðarson.

Formaður setti fundinn kl. 16.07.

1.      Undirritun ársreikninga Rauða krossins

a.Theódór S. Sigurbergsson og Björn R. Bjartmarz frá Grant Thornton, ásamt Örnu Harðardóttur, fjármálastjóra, fóru yfir ársreikning landsskrifstofu 2017 og greindu frá helstu tölum og útskýrðu hann. Reikningurinn var borinn upp og var samþykktur samhljóða.

b. Samstæðureikningur fyrir Rauða krossinn á Íslandi.Theodór, Björn og Arna  fóru yfir samstæður ársreikninginn  og greindu frá helstu tölum og útskýrðu hann. Reikningurinn var borinn upp og var samþykktur samhljóða.

Theódór, Björn og Arna viku af fundi kl. 16.58.

2.      Fundargerð stjórnar frá 18. apríl

Samþykkt.


  1. Fundargerð framkvæmdaráðs frá 7. maí

Samþykkt.

 

  1. Sjúkrabílamál

Framkvæmdastjóri greindi frá stöðu mála. Lítið hefur þokast í málinu frá síðasta fundi. Stjórn fól formanni og framkvæmdastjóra að semja yfirlýsingu fyrir aðalfundinum 26. maí.

 

  1. Undirbúningur aðalfundar

a) Formaður kynnti tillögur að breyttum reglum Verkefnasjóðs. Stjórn samþykkti breytingarnar með fyrirvara um að aðalfundur samþykki breytingar á lögum félagsins sem bornar verða upp á aðalfundinum 26. maí.

b) Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu um stofnun styrktarsjóðs sem sárafátækir geta leitað í.

„Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi, haldinn 26. maí 2018, samþykkir að settur verði á stofn sjóður til styrktar þeim sem búa við sárafátækt og samþykkir að stofnframlag sjóðsins verði kr. 100.000.000. Aðalfundur samþykkir að fela stjórn að semja stofnskrár, úthlutunar – og verklagsreglur sem verði kynntar á formannafundi haustið 2018.“

Greinargerð:
Sjóðurinn er ætlaður er fyrir þá sem búa við sárafátækt hvar sem er á landinu.

Hlutverk sjóðsins er að efla Rauða krossinn í að sinna þeirri grunnskyldu sinni að styðja þá sem  minnst mega sín.

Um er að ræða tímabundið átak sem endurskoðað verður fyrir aðalfundinn 2020. Úthlutunar- og starfsreglur verða mótaðar í samráði við deildir auk faghópa til að tryggja að aðstoð sjóðsins skili sér til þeirra sem mest þurfa á henni að halda.

Verkefnið er vandasamt, flókið og viðamikið. Því er mikilvægt að við mótun reglna sjóðsins sé virkt samráð haft við þá fjölmörgu hópa er málið varðar.

Gert er ráð fyrir að fjármagna sjóðinn með framlögum frá Rauða krossinum og frjálsu framlagi einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila.

Stjórn samþykkti að leggja fram þessa tillögu fyrir aðalfundinn.

c) Formaður bar fram tillögu um að félagsgjald Rauða krossins á Íslandi yrði óbreytt 2019 og 2020 eða kr 3.500 kr. Stjórn samþykkti að tillagan yrði borin upp borinn upp á aðalfundinum.

d) Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu um eflingu varasjóðs Rauða krossins og samþykkti stjórn að hún yrði lögð fyrir aðalfundinn.

„Stjórn Rauða krossins á Íslandi samþykkir á fundi sínum 11.5.2018 að leggja til við aðalfund félagsins 26.05.2018 að efla skuli varasjóð félagsins. Varasjóðurinn hefur verið óbreyttur mörg undanfarin ár. Í ljósi aukinna umsvifa og skuldbindinga félagsins leggur stjórnin til að varasjóðurinn verði aukinn um 100 milljónir króna.“

e) Formaður lagði fram tillögu um heiðursviðurkenningar á aðalfundinum. Stjórn skoðar nánar og ákveður fyrir aðalfundinn.

f) Formaður lagði fram drög að dagskrá fyrir aðalfundinn og samþykkti stjórn hana.

g) Formaður lagði fram tillögu um skipan kjörnefndar og siðanefndar sem lagðar verða fyrir aðalfund.

h) Formaður kynnti tillögu að ályktun sem borin yrði upp á aðalfundi félagsins. Stjórn samþykkti að ályktunin yrði kynnt og borin upp. Hún er svohljóðandi:


„ Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi, haldinn 26. maí 2018, samþykkir að fela framkvæmdastjóra að leiða vinnu sem tryggi að fyrir 01.06.2019 verði komin kynja- og jafnréttisstefna innan Rauða krossins sem kveði á um jafnrétti og fjölbreytileika við ráðningar, jöfn tækifæri starfsmanna til þróunar innan hreyfingarinnar og að áfram verði með öllu óheimilt að mismuna starfsfólki og sjálfboðaliðum vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, fötlunar, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.

ii) öll verkefni Rauða krossins á Íslandi, innanlands sem utan, taki fullt tillit til sjónarmiða sem fram komi í kynja- og jafnréttisstefnu félagsins sem og stefnu Alþjóðsambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans um kynja- og jafnréttissjónarmið (gender and diversity). Rauði krossinn á Íslandi mun auk þess leggja sérstaka áherslu á að bæta stöðu kvenna og stúlkna í alþjóðlegum verkefnum.

iii) ályktun aðalfundar frá 21. maí 2016 gegn fordómum og mismunun sé haldið á lofti og mikilvægi þess að allir geti tekið þátt í starfi Rauða krossins á jafnréttisgrundvelli. Það er samfélaginu til hagsbóta að allir búi við jöfn tækifæri til áhrifa, samræðu og þátttöku. Þannig njótum við öll þess félagsauðs sem til verður í fjölbreyttu samfélagi.

iv) einelti, kynferðisleg áreitni og hvers kyns ofbeldi sé ekki liðin innan Rauða krossins á Íslandi, hvorki af hálfu starfsmanna, sjálfboðaliða eða skjólstæðinga.

Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi skorar jafnframt á formann og stjórn Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans að beita sér enn frekar fyrir kynja- og jafnréttismálum innan Alþjóðasambandsins og að beita sér fyrir því að öll landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans geri slíkt hið sama.“

6.      Stefna 2018-2020

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs, kom á fundinn kl. 17.30 og fór yfir drög að stefnu félagsins varðandi mannúðarstarf til ársins 2020. Drögin voru rædd og síðan borin upp til samþykktar. Samþykkti stjórn þau samhljóða. Að því loknu vék hann af fundinum.

 

  1. Fréttir frá deildum

Framkvæmdastjóri fór yfir starf deilda.    

Halldór og Jónas viku af fundi kl. 18.24.

 

  1. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri greindi frá ferð sinni til Kasakstan á Evrópu – og Mið-Asíu-ráðstefnu landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

 

  1. Næsti stjórnarfundur

Formaður óskaði eftir heimild til að boða til auka stjórnarfundar 25. maí og var hún veitt. Formaður boðar fund ef hann sér ástæðu til.

 

  1. Önnur mál

a)      Formaður greindi frá því að framlag til Sýrlands hafi verið aukið um 25,7 milljónir króna.  Þetta er þriðja framlagið sem Rauði krossinn sendir á árinu til verkefna í Sýrlandi. Er það gert með styrk frá utanríkisráðuneytinu. Hlutur Rauða krossins er 5,7 milljónir.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 18.32.